Farþegafjölgun um 47% fyrstu sex mánuði í Keflavík
Að skella allri skuldinni á krónuna og kveinka sér í fjölmiðlum er aðferð til að breyta vanda eigin fyrirtækis í samfélagsvanda.
Farþegum sem fóru um Keflavíkurflugvöll á fyrstu sex mánuðum ársins fjölgaði um tæp 47% og sker flugvöllurinn sig úr hópi annarra flugvalla á Norðurlöndum. Á ruv.is er í dag vitnað í sænska blaðið Sydsvenskan sem segir að á Keflavíkurflugvelli hafi farþegum fjölgað um 46,7% á fyrstu sex mánuðum ársins. Til samanburðar fjölgaði farþegum Billund á Jótlandi um 9,1% og Arlanda við Stokkhólm um 9% en þeir vellir eru í næstu sætum á eftir Keflavíkurflugvelli yfir mestu fjölgunina.
Þessar tölur bætast við aðrar sem sýna að því fer víðs fjarri að farþegum til Íslands fækki eða dragi úr straumi ferðamanna til landsins. Tölurnar stangast á við neikvæðar fréttir frá einstökum aðilum sem reka ferðaþjónustu í landinu og sjá færri gesti hjá sér en áður. Spurning er hvort þessir aðilar hafi ekki misreiknað sig án tillits til krónunnar og hreinlega verðlagt sig sjálfir út af markaðnum – þeir bjóði einfaldlega vöru sem stenst ekki samkeppni.
Það er nauðsynlegt, flytji fjölmiðlar fréttir frá degi til dags af sveiflum í einstökum atvinnugreinum að gerður sér greinarmunur á heildarmyndinni og stöðu einstakra fyrirtækja í harðri samkeppni. Fjölgun ferðamanna hefur leitt til aukinnar samkeppni um þá og þeir verða einfaldlega undir sem ekki standast hana. Til að gera það verða fyrirtækin að sýna sveigjanleika og bjóða vöru og þjónustu sem er samkeppnisfær.
Fjölgun ferða um Keflavíkurflugvöll sýnir að sífellt verður ódýrara að fljúga til Íslands. Það kallar á að fólk dveljist hér skemur en áður. Styttri dvöl leiðir til minni ferðalaga innanlands. Dreifing fólks um landið frá Keflavíkurflugvelli er ekki í takti við fjölgunina - alltof margir láta sér nægja að fara til Reykjavíkur og nágrennis.
Líta þarf til margra þátta og er krónan vissulega einn af þeim. Draga má úr áhrifum af sveiflum á henni með ýmsum aðferðum. Að skella allri skuldinni á hana og kveinka sér í fjölmiðlum er aðferð til að breyta vanda eigin fyrirtækis í samfélagsvanda. Þetta er þekkt úr sjávarútvegi þótt ekki beri eins mikið á því nú og áður enda hafa stjórnendur þeirra lært að laga sig að gengissveiflum.
Með reynsluna af stjórnmálaafskiptum af sjávarútvegi og landbúnaði er óskiljanlegt að innan ferðaþjónustunnar óski menn eftir meiri ríkisafskiptum af greininni. Nærtækt er núna að huga að óvissunni sem ríkir bæði í sjávarútvegi og landbúnaði vegna þess hve óljóst er hvað fyrir ráðherra þeirra mála vakir í raun og veru. Besta leiðin til að þessar greinar dafni er að þær hafi frelsi til þess.