17.6.2019 10:47

Farsæl utanríkisstefna í 75 ár

Þegar litið er til lykil ákvarðana í utanríkismálum til að tryggja öryggi þjóðarinnar, hernaðarlegt og efnahagslegt, hefur vel til tekist í 75 ára sögu íslenska lýðveldisins.

Í dag er fagnað 75 ára afmæli íslenska lýðveldisins. Við sem fæddumst nokkrum mánuðum síðar og höfum búið við stjórnskipan þess og stjórnarfar eigum margs að minnast og margt að þakka.

Alla tíð hef ég lifað og hrærst í stjórnmálalífi þjóðarinnar. Áhugi minn beindist fljótt að utanríkismálum og síðar einnig að öryggismálaþætti þeirra, varnarmálunum. Í marga áratugi hef ég tekið virkan þátt í umræðum um þessi mál og oft átt aðild að hörðum deilum um þau.

Einlæg sannfæring mín er að það hafi verið mikið gæfuspor fyrir unga íslenska lýðveldið að þiggja boð um stofnaðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Þess vegna er fagnaðarefni að á 75 ára afmæli lýðveldisins fylgi Íslendingar þjóðaröryggisstefnu þar sem NATO-aðildin og tvíhliða varnarsamstarfið við Bandaríkjamenn eru hornsteinar.

Islenski_faninnSama ár og fagnað var 50 ára lýðveldisafmælinu gerðist Ísland aðili að evrópska efnahagssvæðinu (EES). Þar var um ákvörðun að ræða sem jafnast á við ákvarðanirnar um aðildina að NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkjamenn.

EES-samstarfið er reist á svonefndu tveggja stoða kerfi þar sem EES/EFTA-ríkin þrjú hafa sameinast um stofnanir, Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og EFTA-dómstólinn, til að tryggja einsleitna framkvæmd samningsins af sinni hálfu. Þessar stofnanir efndu til viðamikillar afmælisráðstefnu í Brussel föstudaginn 14. júní. Var mér boðið að vera þar meðal ræðumanna.

Ég rifjaði upp að utanríkismálanefnd alþingis hélt alls 82 fundi um EES-samninginn en þegar Ísland gerðist aðili að EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu, árið 1970 hélt utanríkismálanefndin aðeins tvo fundi um þá aðild sem var í raun fyrsta skref Íslendinga inn í alþjóðlegt frjálst markaðshagkerfi.

Fundafjöldinn um EES endurspeglaði að sjálfsögðu mikinn ágreining um aðildina. Hann hvarf þó fljótt og árið 2007 skilaði nefnd allra þingflokka skýrslu þar sem staðfestur var eindreginn stuðningur þeirra allra við EES-samstarfið.

Hvort deilurnar nú um þriðja orkupakkann séu til marks um varanlegar efasemdir í garð EES-samningsins skal ekki fullyrt.

Þær urðu þó til þess að um 300 úr hópi ungs fólks sáu ástæðu til að sameinast um opnu-auglýsingu í dagblaði undir fyrirsögninni: Ekki spila með framtíð okkar. Þar stóð einnig „Við styðjum áframhaldandi aðild Íslands að EES-samningnum. Við viljum frjálst, opið og alþjóðlegt samfélag og stöndum saman gegn einangrunarhyggju.“

Samtímis því sem ég styð EES-aðildina eindregið hef ég beitt mér gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þetta er vel ígrunduð stefna sem tekur mið af nauðsyn þess að halda íslenskum landbúnaði og sjávarútvegi, þar á meðal 200 sjómílna lögsögunni, undir stjórn íslenskra yfirvalda.

Þegar litið er til lykil ákvarðana í utanríkismálum til að tryggja öryggi þjóðarinnar, hernaðarlegt og efnahagslegt, hefur vel til tekist í 75 ára sögu íslenska lýðveldisins.