30.11.2021 10:40

Farsæl fjármálastjórn

Þetta sýnir að vel hefur verið staðið að þjóðarbúskapnum á þessum óvissutímum.

Stjórnvöld ráða ekki við COVID-19-faraldurinn eins og sagan sýnir okkur. Nú um það bil tveimur árum eftir að fyrst var talað um hann í Wuhan í Kína er enn mikil óvissa um áhrif hans hér á landi og um heiminn allan. Ný afbrigði greinast og í nokkra daga eða allt að tveimur vikum stöndum við á öndinni og bíðum niðurstöðu um hvort afbrigðið raski öllu sem gert hefur verið til þessa til að sigrast á veirunni.

Á snöggu augabragði er gripið til takmarkana á flugi og ferðum fólks í heimalöndum sínum, raunverulegt útgöngubann er í gildi í sumum löndum. Hvernig á að mæla hvort stjórnvöld hafa gripið til réttra ráðstafana til að tryggja sem mesta farsæld samfélaga sinna við þessar einkennilegu aðstæður? Besta mælistikan er reist á hagstærðum og afkomu sameiginlegra sjóða. Þar ræður fjárhagur ríkisins miklu.

1250078Bjarni Benediktsson kynnir fjárlagafrumvarp 2022 (mynd: mbl/Kristinn Magnússon).,

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnaghagsráðherra, kynnti fjárlagafrumvarp fyrir árið 2022 í morgun (30. nóvember) og þar kom fram að staðan í efnahagsmálum er betri en gert var ráð fyrir í fjárlögum líðandi árs og mun meiri þróttur í hagkerfinu en búist var við. Atvinnuleysi hefur dregist hratt saman, kaupmáttur hefur aukist mikið, gert er ráð fyrir kröftugum hagvexti og að vöxturinn haldi áfram. Spáð er 5,3% hagvexti á næsta ári og að landsframleiðslan verði þá orðin meiri en fyrir faraldurinn.

Þetta sýnir að vel hefur verið staðið að þjóðarbúskapnum á þessum óvissutímum.

Alls er gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs við mótvægisaðgerðir gegn faraldrinum á árunum 2020-2022 nemi alls 260 milljörðum króna. Í kynningu á fjárlagafrumvarpinu segir:

„Ríkisfjármálunum hefur verið beitt af krafti og árangurinn skilar sér bæði í auknum efnahagsumsvifum og betri skuldastöðu en áður var gert ráð fyrir. Atvinnulífið er í sterkri stöðu til að taka þátt í viðspyrnunni. Kaupmáttur launa hefur vaxið og gæðum samfélagsins er hér skipt með jafnari hætti en víðast hvar annars staðar.“

Atvinnuleysi er nú svipað og fyrir faraldurinn. Þar leggjast hraður viðsnúningur hagkerfisins og vinnumarkaðsaðgerðir stjórnvalda á eitt.

Boðað er að „hefðbundnir drifkraftar vinnumarkaðarins“ taki nú við til að knýja efnahagslífið þegar áhrif faraldursins minnka. Til að það rætist þarf ríkið að skapa svigrúm fyrir þessa krafta en forystumenn atvinnulífsins óttast margir að hlutur ríkisins sé orðinn svo stór að drifkrafturinn utan þess nái sér ekki nægilega á strik til að snúa í vörn í sókn. Í leiðara Morgunblaðsins í dag er þetta orðað á þennan veg:

„Vilji ríkisstjórnin vöxt til velsældar færi betur á því að ríkisvaldið héldi að sér höndum. Það er nóg af vinnufúsum höndum og verk að vinna. En til þess að atvinnulífið og hagkerfið vaxi þarf svigrúm, ekki kæfandi faðmlag.“

Miðað við hve vel Bjarni Benediktsson og ríkisstjórnin hefur haldið á ríkisfjármálum á faraldurstímanum og fyrir hann er ekki að efa að lögð verður höfuðáhersla á að finna hæfilegt jafnvægi við nýjar og betri aðstæður.