9.2.2020 10:41

Farandfólki fjölgar á Kanaríeyjum

Fólkið tekur sér hættulega sjóferð fyrir hendur á frumstæðum fiskibátum. Mörg dæmi eru um að bátana reki út á Atlantshafs og sjáist aldrei aftur.

Þúsundir Íslendinga fara til Kanaríeyjanna ár hvert og margir dveljast þar lengi eins og víðar innan Spánar.

Nú hefur straumur farandfólks frá Vestur-Afríku til eyjanna stóraukist að sögn danska blaðsins Jyllands-Posten. Í janúar 2020 voru þessir aðkomumenn á eyjunum 18 sinnum fleiri en í janúar í fyrra. Þeir voru 708 í ár en 40 í fyrra segir í skýrslu spænska innanríkisráðuneytisins.

Fólkið tekur sér hættulega sjóferð fyrir hendur á frumstæðum fiskibátum. Mörg dæmi eru um að bátana reki út á Atlantshafs og sjáist aldrei aftur.

21900906-7763259-image-a-11_1575628253497Myndin er tekin á Kanaríeyjum og sýnir fiskibát sem farandfólk notar til að sigla yfir Atlantshaf frá Vestur-Afrí

Breska blaðið The Times segir að margir í hópi farandfólksins hefji för sína í Máritaníu sem er um 1.000 km fyrir sunnan Kanaríeyjar.

Í áranna rás hafa þúsundir manna reynt að nota tvær leiðir til að komast ólöglega til Spánar: Annars vegar um spænsku hólmlendurnar Melilla og Ceuta í Marokkó og hins vegar yfir Gíbraltarsund (Njörvasund).

Yfirvöld á Spáni og í Marokkó hafa aukið gæslu á þessum leiðum enda fækkar almennt farandfólki sem leitar til Spánar. Mannheldar girðingar umkringja Melilla og Ceuta og þeir eru gerðir afturreka yfir til Marokkó sem sjást á leið yfir sundið í stað þess að bjarga þeim í land á Spáni.

Þá hefur spænska lögreglan í samvinnu við Europol, Evrópulögregluna, gripið til aðgerða gegn smyglurunum og náð verulegum árangri. Fúlgur fjár hafa verið gerðar upptækar enda eru smyglararnir frekir til fjárins.

Sérfræðingar segja að lokun leiða yfir Miðjarðarhafi hvetji farandfólk til að leita til Kanaríeyja, eina leiðin til að hafa hemil á smyglaraiðjunni að baki sjóferðunum sé að taka á vandanum á heimaslóðum fólksins.

Hætturnar sem fylgja sjóferð frá Vestur-Afríku til Kanaríeyja eru miklu meiri en þær sem steðja að flótta- og farandfólki á leið þess frá Mið-Austurlöndum til grísku eyjanna í Eyjahafi. Þar urðu þáttaskil árið 2015 og dveljast nú 36.000 manns í flótta- og farandmannabúðum sem upphaflega voru reistar fyrir 5.400 manns á eyjunum Lesbos, Chios, Samos, Kos og Leros.

Mikil vandræði ríkja í ofsetnum búðunum og hafa þau áhrif á líf fólks sem á heimili sín á eyjunum. Heimamenn á Lesbos, Samos og Chios hafa efnt til allsherjarverkfalla með kröfu um að hælisleitendur verði fluttir á brott frá eyjunum. Mannréttinda- og mannúðarsamtök gagnrýna iðulega aðbúnaðinn í búðunum.

Fréttir birtast öðru hverju um að strandgestir taki þátt í að bjarga bátafólki á land á Kanaríeyjum og einnig að gripið hafi til þess ráðs að hýsa farandfólk í fjögurra stjörnu hóteli í Las Palmas eftir að því var bjargað.

Yfirvöld á Kanaríeyjum krefjast þess af ríkisstjórninni í Madrid að hún herði landamæravörslu á eyjunum enda sé það skylda hennar að gæta allra spænskra landamæra. Yfirvöldunum er mikið í mun að þessari gæslu sé hagað á þann veg að straumur ólögmætra innflytjenda spilli ekki ágæti þess fyrir ferðamenn að dveljast á eyjunum.