2.7.2019 10:01

Farage segir Timmermans „oftækismann“

Leiðtogarnir sátu árangurslaust yfir þessari tillögu tímunum saman. Mörgum var misboðið vegna tilraunarinnar til að setja sér afarkosti.

Í dag (þriðjudag 2. júlí) klukkan 09.00 að íslenskum tíma hófst þriðji formlegi fundur leiðtogaráðs ESB um það hverjir eigi að skipa æðstu embætti innan Evrópusambandsins næstu fjögur ár. Í Norðurlandablöðum nota fréttaskýrendur orðið ragnarök til að lýsa ástandinu innan leiðtogaráðsins.

Nokkrir stjórnarleiðtogar ESB-ríkja sátu leiðtogafund 20-ríkjanna í Osaka fyrir helgi og á fundi ESB-leiðtogaráðsins sunnudaginn 30. júní kynntu þeir það sem kallað er Osaka-málamiðlunin. Þar var gert ráð fyrir að hollenski jafnaðarmaðurinn Frans Timmermans yrði forseti framkvæmdastjórnarinnar en þýski mið-hægrimaðurinn Manfred Weber yrði forseti ESB-þingsins.

Leiðtogarnir sátu árangurslaust yfir þessari tillögu tímunum saman. Mörgum var misboðið vegna tilraunarinnar til að setja sér afarkosti. Aðrir snerust gegn tillögunni af pólitískum ástæðum.

49421296_401Frans Timmermans.

Angela Merkel Þýskalandskanslari var harðlega gagnrýnd á fundi EPP-þingflokksins fyrir utan að sæta harðri gagnrýni á heimavelli fyrir að hverfa frá stuðningi við Weber, frambjóðanda stærsta þingflokksins, EPP.

ESB-þingið var sett í Strassborg morgun. Þar sýndi breski Brexit-flokkurinn undir forystu Nigels Farage þinginu og ESB óvirðingu með því að snúa baki í þingheim þegar Óðurinn til gleðinnar eftir Beethoven, þjóðsöngur Evrópu, var leikinn.

Brexit-flokkurinn á alls 29 ESB-þingmenn, jafnmarga og kristilegi flokkur Angelu Merkel. Fyrir framan þinghúsið sagði Nigel Farage við blaðamenn: „Við erum stærsti flokkurinn í Evrópu, dágott, er það ekki?“

Farage sagði hiklaust skoðun sína á leiðtogakjörinu með árás á Frans Timmermans:

„Rætt er um Frans Timmermans sem arftaka Jean-Claudes Junckers. Hann er ofstækismaður. Hann vill mylja þjóðríkið, hann vill Bandaríki Evrópu. Að mínu áliti er hann stórhættulegur maður og veit að mjög er þrýst á Thereseu May að styðja hann, mér finnst raunar að forsætisráðherrann eigi ekki að greiða atkvæði þar sem við erum á útleið.“

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur látið orð falla um það að forystuleysi ESB skaði sambandipð út á við og komi sér ákaflega illa á tímum alþjóðlegrar spennu í viðskiptum og efnahagsmálum.