24.2.2019 10:28

Fámenni á Austurvelli – fjöldi á Facebook

Nú hefur fréttastofa ríkisútvarpsins (FRÚ) fundið nýjan kvarða til að gefa til kynna stuðning við mótmæli, það er að vitna til þess hve margir taka undir fundarboð á Facebook.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hætti fyrir nokkrum árum að senda frá sér tölur um fjölda fólks á mótmælafundum í miðborg Reykjavíkur. Þetta var skynsamleg ákvörðun því að ósjaldan var lögreglan dregin inn í marklitlar þrætur vegna þessa. Markmið þeirra sem skipuleggja mótmælin er að fá sem flesta til að lýsa stuðningi við málstaðinn.

Nú hefur fréttastofa ríkisútvarpsins (FRÚ) fundið nýjan kvarða til að gefa til kynna stuðning við mótmæli, það er að vitna til þess hve margir taka undir fundarboð á Facebook með því að segjast ætla að sækja viðkomandi fund eða viðburð eða velti fyrir sér að gera það. Þetta mátti heyra í hádegisfréttatíma FRÚ laugardaginn 23. febrúar þegar rækilega var tíundað að þá síðdegis yrði farin svokölluð hungurganga á Austurvöll og efnt þar til fundar. Í upphafi fréttarinnar sagði að 1.000 manns hefðu boðað komu sína og 4.000 manns veltu fyrir sér að fara á fundinn.

1115833Mynd frá fundinum á mbl.is

Báðar tölurnar voru í raun út í bláinn. Er næsta óskiljanlegt að FRÚ telji sér sæma að nota slíka heimild nema tilgangurinn sé að kalla fram áhuga hlustenda á að láta þann viðburð ekki fram hjá sér fara sem baðar sig í slíkum tölum.

Í þann mund sem fundinum lauk klukkan 15.00 síðdegis birtist ítarleg frétt um hann á ruv.is þar sem í löngu máli var vitnað í ræðu Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur, formanns Öryrkjabandalagsins. Boðskapur hennar var að því hefði verið logið að fátæku fólki að Ísland væri land velsældar og tækifæra.

F4BE5D418DA242EE40792A6E8CCB6C2570C504596570142541D2B0CC8CA11E1A_713x0Mynd frá fundinum á Stöð2, visir.is.

Í fréttinni sagði að „nokkur hundruð manns“ hefðu safnast saman á Austurvelli. Reyndist það því rétt varúðarráðstöfun hjá FRÚ að hæstu tölur um þátttöku í fundinum fengjust með því að vitna í Facebook áður en fundurinn hófst! Á mbl.is sagði að „hópur fólks“ hefði komið saman á Austurvelli.

Í frétt á Stöð 2 kom fram að þeir sem stóðu fyrir hungurgöngunni kenni sig við gul vesti og feti þannig í fótspor gulvestunga í Frakklandi sem mótmælt hafa um hverja helgi í landinu frá 17. nóvember. Mótmælin voru upphaflega gegn hækkun á eldsneyti en hafa síðan tekið á sig mun pólitískari blæ með andstöðu við Emmanuel Macron forseta og gyðinga.

Forystumenn í Sósíalistaflokki Íslands og Eflingu-stéttarfélagi tóku þátt í hungurgöngunni og flutti Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ávarp á Austurvelli. Fundurinn var því liður í kjaradeilu félagsins. Hvernig það samræmist kröfunni um óhlutdrægni FRÚ að auglýsa fund annars aðila kjaradeilu eins og gert var í hádegisfréttum 23. febrúar ætti að vera athugunarefni í stjórn þessa opinbera hlutafélags.