29.7.2017 21:51

Fall Ólafs helga rætt í Snorrastofu

Eftir að Snorrastofa kom til sögunnar fyrir 20 árum hefur skapast einstök aðstaða í Reykholti til að auðvelda fræðimönnum að sinna rannsóknum sínum á þeim stað þar sem Snorri bjó og var að lokum veginn.

Reykholtshátíð er um þessa helgi. Í dag flutti François-Xavier Dillmann prófessor fyrirlestur í Snorrastofu um fall Ólafs konungs Haraldssonar. Í kynningu frá Snorrastofu um fyrirlesturinn sagði:

„Um engan viðburð til forna hafa spunnist fleiri sagnir á Norðurlöndum en Stiklarstaðaorrustu 1030 þar sem Ólafur konungur Haraldsson féll. Kirkjan hefur dagsett orrustuna 29. júlí og nefnt Ólafsmessu. En hverjir voru andstæðingar Ólafs digra og hvers vegna var gerð uppreisn gegn honum? Í fyrirlestrinum verður fjallað um aðdragandann að Stiklarstaðaorrustu.

Dr. François-Xavier Dillmann, prófessor í fornnorrænum fræðum í École pratique des Hautes Études í París (Sorbonne) er virtur vel fyrir fræðastörf sínum á evrópskum vettvangi. Hann hefur unnið mjög að franskri þýðingu á verkum Snorra Sturlusonar, þýddi Snorra Eddu, som kom út hjá Gallimard forlaginu í París 1991, og hefur verið mjög vinsæl hjá frönskumælandi lesendum – hefur komið út í tugþúsunda upplagi (prentuð 19 sinnum). Þá hefur komið út af hans hendi fyrsti hluti þýðingar á Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Dillmann er mikill aufúsugestur í Reykholti og fræðasamfélagið fagnar hverri dvöl hans hér.“


Hér er mynd sem ég tók í Snorrastofu í dag þegar prófessor Dillmann svaraði fyrirspurnum eftir fróðlegan fyrirlestur sinn.

Þeir sem rannsaka verk Snorra af jafnmikilli alúð og prófessorinn koma alltaf auga á eitthvað nýtt sem skýrir myndina sem Snorra dró með texta sínum. Dillmann lagði áherslu á mikilvægi dróttkvæðanna sem samtímaheimildar. 

Athyglisvert er sem fram kemur í kynningunni frá Snorrastofu að þýðing Dillmanns á Snorra Eddu á frönsku hafi verið prentuð 19 sinnum síðan 1991.  Prófessorinn lætur ekki við það eitt sitja að þýða verk Snorra úr íslensku á frönsku heldur skrifar hann ítarlegar skýringar um verkin og opnar með þeim augu lesenda enn betur fyrir því hve Snorri lagði mikið af mörkum til heimsmenningarinnar.

Eftir að Snorrastofa kom til sögunnar fyrir 20 árum hefur skapast einstök aðstaða í Reykholti til að auðvelda fræðimönnum að sinna rannsóknum sínum á þeim stað þar sem Snorri bjó og var að lokum veginn. Reykholt verður með þessu ekki aðeins fræðasetur fortíðar heldur einnig samtíðar og rannsóknir, skýringar og þýðingar verða til þess eins að auka veg Snorra og íslenskrar menningar um heim allan. 

Ramminn um Reykholtshátíð er tónlistarhátíð sem hófst í gærkvöldi og lýkur á morgun.

Að loknum fyrirlestri prófessors Dillmanns hlustaði ég á tónleika Meta4 strengjakvartettsins frá Finnlandi í Reykholtskirkju en lokaverk á tónleikum hans var strengjakvintett eftir Mozart þar sem Þórunn Ósk Marínósdóttir víóluleikari var gestur.