7.5.2019 10:29

Fagstofnanir ESB og íslensk hagsmunagæsla

Þegar að fagstofnunum og stjórnum þeirra kemur eiga EES/EFTA-ríkin fulltrúa við stjórnarborðið með málfrelsi, tillögu- og bókunarrétt.

Í formlegu áliti allra lögfræðinga um hvort þriðji orkupakkinn (O3) standist stjórnarskrána segir að svo sé. Tveir sem gefa sameiginlegt álit, Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst, nálgast niðurstöðu sína eftir krókaleiðum. Andstæðingar O3 hengja sig í ummæli í vangaveltum Stefáns Más og Friðriks Árna til að komast að gagnstæðri niðurstöðu við þá, höfunda álitsins.

Þetta er lýsandi fyrir lagaþrætuna um O3 en breytir engu. Lögfræðileg álit vegna EES-samningsins hafa að lokum öll hnigið til þeirrar áttar að samningurinn og afleiður hans standist stjórnarskrána. Vilji menn berjast gegn aðild Íslands að EES eða ákvæðum til að tryggja einsleitni á sameiginlega markaðnum er skynsamlegt að líta til annars en stjórnarskrárinnar. Sá slagur hefur tapast nógu oft til að sanna haldleysi sitt.

Efsa_logoEFSA, Matvælaöryggisstofnun Evrópu, er ein fagstofnanna ESB sem skiptir okkur Íslendinga miklu og þar sem fulltrúar stjórnvalda taka þátt í margví

Þorbjörn Þórðarson blaðamaður segir á visir.is mánudaginn 6. maí í tilefni af því að þann dag voru Stefán Már og Friðrik Árni fyrir utanríkismálanefnd alþingis:

„Eftir gildistöku EES-samningsins hefur þróun Evrópusambandsréttarins verið í þá átt að miðlægum stofnunum sambandsins hefur í auknum mæli verið falið vald til að taka ákvarðanir sem eru bindandi fyrir aðildarríki sambandsins.“

Hér er um að ræða fagstofnanir með sérfræðiþekkingu á einstökum sviðum og mjög þröngt umboð til matskenndra ákvarðana. Framkvæmdastjórn ESB framselur eftirlits- og sérfræðivald til fagstofnananna í því skyni að tryggja snurðulaus samskipti á sameiginlega markaðnum.

EES/EFTA-ríkin (Ísland, Liechtenstein og Noregur) eiga samskipti við framkvæmdastjórn ESB án þess að eiga fulltrúa á fundum hennar. Þegar að fagstofnunum og stjórnum þeirra kemur eiga EES/EFTA-ríkin fulltrúa við stjórnarborðið með málfrelsi, tillögu- og bókunarrétt. EES/EFTA-ríkin eru að þessu leyti betur sett gagnvart fagstofnunum ESB en framkvæmdastjórn ESB. Að greidd séu atkvæði í stjórnum þessara stofnana er algjör undantekning, lögð er áhersla á sátt og málamiðlun.

Þorbjörn Þórðarson segir í fyrrgreindri frásögn á visir.is:

„Í ljósi þess að EES-samstarfið hefur þróast með þessum hætti þrátt fyrir þögn stjórnarskrárinnar og þróunin hafi verið látin athugasemdalaus má færa rök fyrir því að mótast hafi [íslensk] stjórnskipunarvenja fyrir þessu fyrirkomulagi. Virðist þessi þróun EES-samstarfsins vera komin til að vera.“

Það liggur ekki í augum uppi að þessi þróun sé öndverð hagsmunum EES/EFTA-ríkjanna sinni þau hagsmunagæslu sinni á viðunandi hátt.