Fagráð á villigötum
Þá ætlaði matvælastofnun að fela fagráði að „meta hvort veiðar á stórhvelum geti yfir höfuð uppfyllt markmið laga um velferð dýra“. Sendi stofnunin fagráðinu bréf 22. maí 2023.
Við stjórnarmyndun haustið 2021 var því hafnað að sett yrðu ákvæði í stjórnarsáttmála um að stöðva hvalveiðar. Krafa af hálfu flokks Svandísar Svavarsdóttur um málið náði ekki fram að ganga. Þetta vissi hún að sjálfsögðu þegar hún varð matvælaráðherra og hvalamál féllu undir pólitískt forræði hennar.
Leikbragð hennar sumarið 2023 var að fresta hvalveiðum í nokkrar vikur yfir sumarmánuðina, líklega í von um að Hvalur hf. félli frá áformum um veiðar frá og með 1. september. Með þessari aðgerð gat hún sagt að hún bannaði ekki hvalveiðar heldur frestaði þeim og bryti með því ekki gegn samkomulaginu að baki stjórnarsáttmálanum.
Samstarfsflokkar hennar í ríkisstjórn létu þar við sitja enda var þeim ljóst að umboðsmaður alþingis mundi fjalla um stjórnsýsluþátt málsins og gefa um það álit. Við birtingu þess yrði að nýju rætt um embættisverk ráðherrans.
Frétt Morgunblaðsins 9. janúar 2023. Ráðherrann skeytti engu um ráðgjöf þeirra sem vöruðu hana við skorti á valdheimildum þegar hún fór að ráði fagráðs um dýravelferð sem hunsaði umboð sitt og taldi hvalveiðar brjóta gegn lögum sem giltu ekki um þær.
Umboðsmaður birti 18 bls. álit sitt föstudaginn 5. janúar. Niðurstaðan er að ráðherrann beitti þeirri fráleitu aðferð að nota lög um velferð dýra til að gefa út reglugerð á grundvelli laga um hvalveiðar. Svandísi þótti þetta sjálfsagt af því að lögin um hvalveiðar frá 1949 voru ekki með velferðarákvæðum sem er að finna í lögunum frá 2013 um velferð dýra.
Þessa leikfléttu gegn Hvali hf. rökstuddi ráðherrann með skýrslu og ábendingum frá Matvælastofnun og fagráði um dýravelferð á hennar vegum. Daginn eftir að fagráðið gaf álit sitt greip ráðherrann til reglugerðarvaldsins gegn Hval hf. Braut Svandís þar gegn reglum um meðalhóf að mati umboðsmanns enda hefði Hvalur hf. haft „réttmæta ástæðu til að ætla“ að fyrirtækið „gæti að meginstefnu haldið áfram atvinnustarfsemi sinni þá um sumarið að óbreyttum lögum“.
Reglugerðin var dagsett 20. júní 2023, daginn eftir að álit fagráðsins barst og sama dag og Svandís kynnti ákvörðun sína í ríkisstjórn.
Þá voru um tvær vikur liðnar frá því að Svandís sagði í ræðustól á alþingi:
„Samkvæmt ráðgjöf sem lögfræðingar matvælaráðuneytisins hafa gefið mér er ekki að finna skýra lagastoð fyrir stjórnsýsluviðurlögum, svo sem afturköllun leyfis að svo búnu.“
Af gögnum málsins má ráða að matvælastofnun taldi að Hvalur hf. hefði á vertíðinni sumarið 2022 ekki brotið gegn 27. grein laga um velferð dýra en stofnunin taldi þörf á frekara eftirliti á vertíðinni sumarið 2023. Þá ætlaði stofnunin að fela fagráði að „meta hvort veiðar á stórhvelum geti yfir höfuð uppfyllt markmið laga um velferð dýra“. Sendi stofnunin fagráðinu bréf 22. maí 2023.
Fagráðið gekk lengra en þetta umboð gerði ráð fyrir og sagðist ekki sjá að sú veiðiaðferð sem beitt væri við veiðar á stórhvelum samræmdist ákvæðum laga um velferð dýra. Stofnunin vildi hins vegar vita hvort hvalveiðar gætu yfir höfuð fallið að lögunum. Lögin giltu ekki um veiðarnar. Hver veitti fagráðinu umboð til að segja hvalveiðar brjóta lög sem giltu ekki um þær? Þar var um pólitíska afstöðu að ræða fyrir ráðherra sem síðan gerðist sekur um valdníðslu.