23.12.2022 10:11

Færeyingar fá nýja stjórn

Vegna breyttra aðstæðna í öryggismálum undanfarin misseri hefur bandaríski flotinn látið sig Færeyjar meira varða en áður enda skiptir aðstaða á eyjunum miklu.

Ný þriggja flokka ríkisstjórn var mynduð í Færeyjum miðvikudaginn 21. desember, Javnaðarflokkurin, Tjóðveldi og Framsókn hafa samtals 18 af 33 lögþingsmönnum eftir kosningarnar. Aksel V. Johannesen, Javnaðarflokknum, er lögmaður, Høgni Hoydal, Tjóðveldi, utanríkisráðherra og Ruth Vang, Framsókn. fjármálaráðherra.

Skref stjórnarinnar til að draga úr tengslum við Danmörku er að beinar fjárveitingar þingsins í Kaupmannahöfn til Færeyja minnka um 100 m. dkr. (2,1 milljarð ísl. kr.) á kjörtímabilinu.

Nyggja_landsstyridNýja færeyska landstjórnin 21. desember 2022.

Aksel V. Johannesen var áður lögmaður árin 2015 til 2019 en þá tók Bárður á Steig Nielsen, Sambandsflokknum, við af honum. Hann rauf þing í nóvember 2022 og boðaði til kosninga þegar stjórn hans missti meirihluta á lögþinginu. Tildrög þess voru að lögmaðurinn neyddist til að veita formanni Miðflokksins, Jenis av Rana, utanríkisráðherra lausn frá embætti. Jenis av Rana fór einnig með menningarmál og neitaði að framfylgja ákvörðun lögþingsins um að börn samkynhneigðra hefðu rétt til að bera eftirnafn beggja foreldra.

Í kosningabaráttunni, 25. nóvember 2022, endurnýjaði færeyska ríkisstjórnin tvíhliða fiskveiðisamning við Rússa fyrir árið 2023. Sætti stjórnin gagnrýni fyrir að semja áfram við Rússa en hún bar fyrir sig verndun fiskstofna. Rússar hafa heimild til að veiða 93.500 tonn af kolmunna og makríl, ásamt meðafla, í færeyskri lögsögu en á móti fá Færeyingar leyfi til að veiða 18.461 tonn af þorski, ýsu, flatfiski og rækjum í rússneskri lögsögu.

Aksel V. Johannesen og Høgni Hoydal sögðu í kosningabaráttunni að í ksoningabaráttu væri ekki um annað að ræða en framlengja Rússasamninginn en næsta ár yrði að nota til að búa sig undir að binda enda á samninga við Rússa vegna stríðsins í Úkraínu – sem allir færeysku stjórnmálaflokkarnir fordæma harðlega.

Hogni Høydal (f. 1966) hefur gegnt ýmsum ráðherraembættum í Færeyjum, m.a. embætti utanríkisráðherra í nokkra mánuði árið 2008. Hann var gagnrýninn á NATO en hefur horfið frá þeirri stefnu. Á liðnu sumri var víðtæk samstaða um það meðal færeyskra stjórnmálamanna að opnuð yrði að nýju ratsjárstöð í þágu NATO í Færeyjum en rekstri hennar var hætt árið 2007. Þá myndaðist geil í ratsjáreftirlitið á N-Atlantshafi sem hafði meðal annars neikvæð áhrif hér á landi. Meðal ákvæða í sáttmála nýju færeysku ríkisstjórnarinnar er að hún fái stjórn lofthelgi Færeyja í sínar hendur.

Vegna breyttra aðstæðna í öryggismálum undanfarin misseri hefur bandaríski flotinn látið sig Færeyjar meira varða en áður enda skiptir aðstaða á eyjunum miklu fyrir þá sem tryggja vilja öryggi á varnarlínunni sem kennd er við GIUK-hliðið og dregin frá Grænlandi um Ísland til Skotlands.

Í fréttum segir að nokkur bandarísk herskip og kafbátar hafi komið til Færeyja á árinu 2022 en slíkt hafi sjaldan gerst áður. Færeyingar sjálfir láta sig öryggismál meiru varða en áður og vilja eins og Grænlendingar að innan danska konungdæmisins sé tekið ríkara tillit til sjónarmiða þeirra um þau málefni. Danska ríkisstjórnin beinir einnig meiri athygli að öryggi á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum en hún hefur áður gert.