20.9.2019 11:05

Fæðingarhríðir ESB-framkvæmdastjórnar

Nokkur hvellur varð í fyrri viku þegar Ursula von der Leyen tilkynnti að Margaritis Schinas, fulltrúi Grikklands, yrði framkvæmdastjóri „varðstöðu um evrópska lífshætti“.

Ursula von der Leyen, verðandi forseti framkvæmdastjórnar ESB, vinnur nú að því að skipta verkum milli þeirra sem ESB-ríkin tilefna í framkvæmdastjórnina. Líklegt er að hún beiti sér bakvið tjöldin gagnvart ríkisstjórnum um fulltrúa þeirra. Annað þarf hún að ræða við fulltrúa á ESB-þinginu.

XVM77f3aa7e-daf0-11e9-b53d-fa4a36ff870eUrsula von der Leyen.

Fimmtudaginn 19. september hitti hún formenn ESB-þingflokka í Strassbourg og kynnti þeim hugmyndir sínar um skiptingu starfa í framkvæmdastjórninni. Nokkur hvellur varð í fyrri viku þegar von der Leyen tilkynnti að Margaritis Schinas, fulltrúi Grikklands, yrði framkvæmdastjóri „varðstöðu um evrópska lífshætti“ auk þess að fara með málefni flótta- og farandfólks. Þótti titillinn of gildishlaðinn og einhverjir kenndu hann við rasisma.

Í frétt franska blaðsins Le Figaro um fund von der Leyen segir að hún hafi staðið föst fyrir. Á þessu stigi að minnsta kosti sjái hún ekki ástæðu til að breyta þessu nafni. Blaðið bendir jafnframt á að ekkert sé þó útilokað í því efni eins og von der Leyen hafi sagt í grein sem hún birti í nokkrum dagblöðum ESB-ríkja fyrr í vikunni.

Henni er nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar gagnvart ESB-þinginu vegna þess hve naumur meirihluti þingmanna stendur að baki henni.

Þessar deilur um starfsheiti eins af framkvæmdastjórum ESB er hluti af ágreiningi innan allra ESB-ríkjanna um stefnuna í útlendingamálum. Um hana er engin sátt hvorki á ESB-þinginu né þjóðþingum einstakra aðildarríkja. Í nýja starfsheitinu felst viðurkenning á nauðsyn varnaraðgerða sem sumir segja algjörlega ástæðulausar. Það sé beinlínis hrokafullt af Evrópubúum að telja sig hafa eitthvað að verja í þessu efni.

Þeir sem sitja í framkvæmdastjórninni þurfa blessun ESB-þingmanna til að geta tekið við embættum sínum 1. nóvember. Í Le Figaro segir að sex í hópnum séu undir smásjá þingamannanna af ólíkum ástæðum en þeir eru: Frakkinn Sylvie Goulard (innri markaður), Rúmeninn Rovana Plumb (samgöngur), Belginn Didier Reynders (dómsmál), Pólverjinn Janusz Wojciechowski (landbúnaður), Ungverjinn Laszlo Trocsanyi (stækkunarmál) og Spánverjinn Josep Borrell (utanríkismál).

Stefnt er að því að ný framkvæmdastjórn ESB fái staðfestingu þingsins 23. október. Umræður um val á mönnum í hana hverfa í skuggann af brexit eins og annað er varðar ESB. Nú er gefið til kynna í fréttum að hreyfing sé í átt að nýju samkomulagi Breta og ESB þar sem tekið sé á meginhindruninni til þessa, varnaglanum vegna landamæra á Norður-Írlandi.

.