28.1.2018 11:10

Eyþór sigraði - VG og dómsmálaráðherra

Sumir fjölmiðlamenn fóru að tillögu Björns Vals og gerðu stöðu dómsmálaráðherra að einu helsta álitamálinu innan VG.

Alls voru 3.885 atkvæði greidd í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík laugardaginn 27. janúar, auðir og ógildir seðlar voru 59, því komu 3826 atkvæði til skiptanna milli fimm frambjóðenda og skiptust þau þannig: 

Eyþór L. Arnalds – 2320, Áslaug María Friðriksdóttir – 788, Kjartan Magnússon – 460, Vilhjálmur Bjarnason – 193 og Viðar Guðjohnsen – 65. 

Eyþór L. Arnalds fékk afgerandi stuðning með um 60% atkvæða sem er mikils virði fyrir þann sem tekur að sér að leiða lista Sjálfstæðismanna í borginni. Þátttaka í prófkjörinu ber vott um að efla verði starf Sjálfstæðisflokksins í höfuðborginni. Þrátt fyrir öll hverfafélögin og önnur flokkssamtök sem starfa í Reykjavík tekst ekki að virkja nema tæplega 4.000 manns til þátttöku í leiðtogaprófkjörinu.  

Oft áður hefur verið vakið máls á þessum grasrótarvanda Sjálfstæðismanna í Reykjavík hér á síðunni. Flokksstarfið er í raun aðeins svipur hjá sjón miðað við það sem áður var.  

Kristinn Magnússom tók þessa mynd fyrir mbl.is  þegar úrslit leiðtogaprófkjörsins voru ljós: Áslaug Friðríksdóttir, Eyþór Arnalds, Kjartan Magnússon og Vilhjálmur Bjarnason.

Annar pólitískur stórviðburður helgarinnar er flokksráðsfundur vinstri grænna (VG). Björn Valur Gíslason, fyrrv. varaformaður VG, gaf þann tón fyrir fundinn að þar yrði gert út um setu Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG. Það gekk að sjálfsögðu ekki eftir enda hefði það jafngilt yfirlýsingu um stjórnarslit. 

Sumir fjölmiðlamenn fóru að tillögu Björns Vals og gerðu stöðu dómsmálaráðherra að einu helsta álitamálinu innan VG.  Katrín Jakobsdóttir sagði að staða dómsmálaráðherra væri ekki það sem flokksmenn bæru helst fyrir brjósti á fundinum, Mest hefði verið rætt um heilbrigðismál og umhverfismál enda þeir málaflokkar á verksviði ráðherra flokksins. 

Fréttamanni ríkisútvarpsins tókst hins vegar að fá Edward Huijbens, varaformann VG, til að segja að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra ætti að víkja ef skoðun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og umboðsmanns alþingis „á lögbrotum hennar kemur illa út,“ eins og segir á ruv.is laugardaginn 27. janúar.  

Hallgrímur Indriðason fréttamaður ríkisútvarpsins ræddi við Edward Huijbens og segir í fréttinni um samtal þeirra: 

„Aðspurður í hvaða stöðu málið er ef skoðun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og umboðsmanns Alþingis kemur illa út fyrir ráðherrann segir Edward. „Ég vona þá að hún sjái að sér hreinlega, taki þá af skarið og sýni það pólitíska þor að segja af sér. Það er það em ég vonast til. Ég vonast líka til að Sjálfstæðisflokkurinn sem hún situr fyrir bendi á að hún þurfi að gera eitthvað í málinu. En það er ekki vilji Vinstri grænna að gera skýlausa kröfu um afsögn hennar þvert á vilja Sjálfstæðismanna og þar með sprengja ríkisstjórnina. Það er ekki okkar vilji.“ 

Þarna er það fréttamaðurinn sem notar orðin „kemur illa út“ um hugsanlega niðurstöðu í þingnefnd eða hjá umboðsmanni alþingis. Varaformaður VG notar ekki þessi orð. Fréttastofan áskilur sér greinilega rétt til að túlka hvort niðurstöður „koma illa út“ eða ekki og leggja málið að nýju fyrir varaformanninn með vísan til þessa samtals.  

Hér var nýlega bent á að Svandís Svavarsdóttir, þáv. umhverfisráðherra, núv. heilbrigðisráðherra VG, var árið 2010 gerð afturreka með staðfestingu á svæðis- og aðaskipulagi höfuðborgarsvæðisins vegna vanhæfis, varð að ógilda staðfestingarferlið og hefja það að nýju með settum umhverfisráðherra. Talaði fréttastofan þá um að þetta „kæmi illa út“ fyrir Svandísi? Var þó um skýrt brot á stjórnsýslulögum að ræða. 

Fréttastofa ríkisútvarpsins verður að sjá að sér í frásögnum af störfum dómsmálaráðherra. Ráðist niðurstaðan af því hver „kemur illa út“ er fréttastofan sjálf sigurstranglegust.