9.5.2020 10:09

Eyrnamörkin – Vegagerðin og Geirsgata

Það kostar skattgreiðendur varla neitt að hafa línu um eyrnamörk í lögum þótt markanefnd hverfi úr sögunni.

Við eigendur fjármarka erum spurðir hvort við viljum viðhalda skráningu þeirra í markaskrá sem gefin er út á átta ára fresti á kostnað okkar sem svörum játandi. Markaskrá kemur út í ár, vonandi ekki í síðasta skipti þótt fyrir alþingi liggi nú stjórnarfrumvarp um að fella niður skyldu bænda til að marka fé sitt.

Frumvarpið er liður í grisjunarátaki stjórnarráðsins, felld eru úr gildi lög og reglugerðir sem þykja hafa gengið sér til húðar. Ólafur R. Dýrmundsson, fyrrv. ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands og nú markavörður fyrir Landnám Ingólfs, segir hugmyndina um að hverfa frá eyrnamörkum „gjörsamlega fáránlega“ . Eyrnamörk hafa verið frá landnámstíð. Þau tryggja að rekja má sauðfé til eigenda sinn. Plastplötur skapa aldrei sama öryggi.

Hreppstjórar aflagðir hér í sparnaðarskyni, sé rétt munað vildi dómsmálaráðherra spara 50 m. kr. á ári með því að þurrka þessa gamalgrónu sýslunarmenn út úr lögbókunum. Það sótti að sá grunur að ráðherrann ætlaði okkur þingmönnum að hafna tillögu hans og tryggja honum aurinn á annan hátt, hann var hins vegar tekinn á orðinu og hreppstjórarnir hurfu.

Það kostar skattgreiðendur varla neitt að hafa línu um eyrnamörk í lögum þótt markanefnd hverfi úr sögunni og algrím komi í staðinn, allir sauðfjárbændur eru hvort sem er ljósleiðaratengdir, þökk sé Haraldi Benediktssyni alþingismanni.

1200px-EyrnamarkBæði með eyrnamark og plastplötu.

*

Nú kemur í ljós að það er „forgangsröðun ferðamáta“ Píratans í formennsku skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar í þágu hjólreiðafólks við Geirsgötu gengur gegn samkomulagi bæjarstjórnar Seltjarnarness við borgaryfirvöld.

„Ég held að þessi framkvæmd sé bara gríðarlega illa undirbúin, enda stenst hún ekki einu sinni samkomulag okkar við borgina,“ sagði Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar Seltjarnarness, í Morgunblaðinu föstudaginn 8: „Það verður að tryggja góðar og öruggar samgöngur á milli sveitarfélaga og ég efast um að Strætó telji þetta vera heppilegustu lausnina, einkum í ljósi umferðaröryggis.“

Vegagerðin hefur umsjá með stofnvegum sem tengja saman byggðir í landinu og þess vegna ber Vegagerðin í raun ábyrgð á framkvæmdum við Geirsgötu. Þegar Morgunblaðið spurði G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, um hlut hennar bjó hann til nýtt hugtak um Geirsgötu og kallaði hana „skilaveg“ vegna þess að um næstu áramót færi gatan í umsjá Reykjavíkurborgar 1. janúar 2021 samkvæmt nýjum lögum. Þá er haft eftir upplýsingafulltrúanum:

„Vegurinn er enn í okkar umsjá og því hefði verið kurteisi að gera það [hjá Reykjavíkurborg að ræða við Vegagerðina áður en hún ákvað að hindra umferð bíla um götuna með biðstöð strætisvagna]. En kannski gerði borgin það ekki því við höfum til þessa ekki verið að setja okkur upp á móti breytingum þarna því vegurinn er að færast yfir til þeirra. Þeir hafa bara litið svo á að það sé ekki sérstök þörf á því.“

Vandræðalegri getur afstaða talsmanns opinberrar stofnunar sem ber ábyrgð á þessari framkvæmd varla verið. Hann segir með öðrum orðum að Vegagerðin líði Reykjavíkurborg að gera það sem henni hentar í framkvæmdum við götu sem er alls ekki í hennar umsjá. Það er ekki ein báran stök í þessu máli frekar en svo mörgum öðrum sem snerta ákvarðanir borgaryfirvalda í samgöngumálum. Ætli bæjarstjórn Seltjarnarness að gæta réttar síns í þessu máli ætti hún ekki að líta fram hjá hlut Vegagerðarinnar.