Eymundsson óttaðist ekki nýjungar
Afneitun gagnvart nýrri tækni breytist á skömmum tíma í afturhald eða eyðileggingarstarf.
COVID-19-faraldurinn leiðir til margvíslegra breytinga þar á meðal vegna þess að upplýsingatæknin (UT) sannar enn gildi sitt við úrlausn margra verkefna.
Erlendis frá berast fréttir um að fasteignafélög óttist um eigin hag vegna þess að stórir viðskiptavinir sjái að þeir geti aukið hagkvæmni í rekstri og sparað með því að hvetja starfsmenn sína til að stunda vinnu sína utan hefðbundinna starfsstöðva.
Hér á landi láta kennarar og nemendur vel af reynslunni af fjarkennslu. Raunar er þar reist á um 20 ára þróun. Vegna sóttvarnakrafna hefur verið stigið stórt skref til nýtingar UT í skólastarfi. Tölvueign og háhraðatengingar um allt land auðvelda notkun þessarar tækni hér en fréttir frá öðrum löndum eru ekki eins jákvæðar vegna mismunandi aðstöðu til að nýta UT öllum nemendum til framdráttar. Huga ætti að því að búa til verkefni til útflutnings sem reist er á reynslunni af UT í skólastarfi hér vegna faraldursins.
Fjarfundir hafa gefið af sér góða raun bæði innan lands og milli landa. Þeir sem taka þátt í þeim átta sig á skilvirkni þeirra og hagkvæmni í öllu tilliti.
Miðað við reynsluna af þessu öllu ætti að stuðla að því að einkaframtakið fái notið sín við fjarlæknisþjónustu. Það ýtti undir alla fjarkennslu hér að sú stefna var mótuð að ríkið stjórnaði ekki stóru og smáu. Þveröfug stefna ræður nú innan íslenska heilbrigðiskerfisins. Heilbrigðisráðuneytið krefst þess til dæmis að Landspítalinn sjái um krabbameinsleit án þess að hafa í raun til þess tæki eða mannafla. Heilbrigðisráðherra VG sér ofsjónum yfir því að Krabbameinsfélagið veiti þessa þjónustu.
Þessi mynd birtist í Morgunblaðinu í dag og sýnir bækur sem Penninn/Eymundsson hefur endursent Uglu. (Mynd: Jakob F. Ásgeirsson.)
Afneitun gagnvart nýrri tækni breytist á skömmum tíma í afturhald eða eyðileggingarstarf. Frétt um þetta birtist í Morgunblaðinu í dag (9. júní) þegar sagt er frá því að allar bækur forlagsins Uglu hafi verið fjarlægðar úr verslunum Pennans. Jakob F. Ásgeirsson, stofnandi og eigandi Uglu segir að þetta megi rekja til þess að nýjar bækur Uglu séu til sem hljóðbækur hjá fyrirtækinu Storytel.
Ingimar Jónsson, forstjóri Pennans, telur hljóðbækur minnka sölu bóka í Pennanum/Eymundsson. Í fréttinni í dag kemur fram að allar bækur sem séu jafnframt í streymi hjá hljóðbókaveitunni Storytel séu teknar úr sölu hjá Pennanum. Aðförin er ekki aðeins að Uglu heldur hljóðbókum almennt. Í faraldrinum hafa þær orðið vinsælli en nokkru sinni.
Af viðbrögðum annarra útgefenda má ráða að þeir óttast ægivald Pennans á markaðnum. Um 90% af sölu Uglu fer um Pennan/Eymundsson tíu mánuði ársins og nú fá þeir sem spyrja um bækur frá Uglu þau svör í verslunum þessa öfluga söluaðila að bækurnar séu uppseldar. „Þetta hefur aldrei gerst hér í bóksölu eða bókaútgáfu hér á Íslandi, að það hafi verið gerð svona aðför að einu útgáfufyrirtæki,“ segir Jakob.
Sigfús Eymundsson var frumkvöðull á síðari hluta 19. aldar, opnaði fyrstu ljósmyndastofuna í Reykjavík árið 1867 og síðan bókaverslunina Eymundsson árið 1872. Að tengja nafn hans við afturhaldsstefnu af ótta við nýjungar árið 2020 er ekki sæmandi.