4.1.2020 13:13

Eyjan segir Þorgerði Katrínu nota nazistastimpil

Hafni formaður Viðreisnar því að „sérhagsmunaöfl“ berjist fyrir aðild Íslands að ESB verður hún að skýra hvað í orðinu felst.

Að sjálfsögðu kann mönnum að hitna í hamsi þegar hart er tekist á með orðum. Í hita leiksins er stundum meira að segja ástæða til að vekja máls á þeirri ábendingu að taki menn til við að líkja andstæðingum sínum við nazista geri þeir sjálfa sig marklausa.

Í ljósi þessa vakti undrun að sjá því haldið fram á vefsíðunni eyjan.is að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, tæki þannig til orða í áramótagrein í Fréttablaðinu 2. janúar að hún sæi „líkindi milli uppgangs nasismans á fjórða áratug síðustu aldar og því [svo!]sem nú er að gerast á Íslandi og Evrópu“. Telur ritstjórn Eyjunnar að þetta megi ráða af því að Þorgerður Katrín vitni í „frægar ljóðlínur Martin Niemöller, prests sem var gagnrýninn á þriðja ríki nasista í Þýskalandi“ og segi:

„Árið 2019 afhjúpaði að mörgu leyti þau sérhagsmunaöfl sem hafa fest rætur sínar innan íslensks samfélags. Fámennir aðilar ráða hér miklu. Áhrif þeirra ná til stjórnkerfisins, hagsmunasamtaka og stjórnmálaflokka.”

Hún segir einnig:

„Áróður þessara afla einkennist af hentistefnu og það er alið á ótta, sundrung og óhróðri. Tortryggninni gefnir vængir. En á endanum snýst þetta aðeins um eitt; völd. Þeirra völd. Ekkert annað. Sinnuleysi gagnvart lýðskrumi og öfgum er því ekki í boði.“

Hér er hart vegið að „sérhagsmunaöflum“ án þess að segja annað en að málið snúist um völd. Málefnalega útlistun skortir.

IMG_0608Undarlegt er að Þorgerður Katrín skuli gagnrýna aðra fyrir sérskoðanir eða sérhagsmuni þar sem afstaða flokks hennar, Viðreisnar, til aðildar að ESB og efnisatriða í auðlindaákvæði í stjórnarskrána verður ekki felld undir annað en sérskoðun miðað við viðhorf annarra. Fastheldni við ESB-aðildina varð meira að segja til þess að hópur fólks yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn og stofnaði Viðreisn til að tryggja sér völd.

Hafni formaður Viðreisnar því að „sérhagsmunaöfl“ berjist fyrir aðild Íslands að ESB verður hún að skýra hvað í orðinu felst. Hún verður einnig að skýra hvort sá skilningur ritstjórnar Eyjunnar sé réttur að fyrir henni vaki að líkja andstæðingum sínum á stjórnmálavettvangi við nazista. Undir slíkum ásökunum getur enginn setið mótmælalaust fyrir utan markleysið sem þetta leiðir yfir formann Viðreisnar.