23.1.2023 9:34

Eyjagossins minnst

Þegar litið er til baka og hugað að giftusamlegri björgun Vestmanneyinga á ögurstundu er auðvelt að álykta að einstök blessun hafi hvílt yfir íbúunum þar.

Þess er minnst í dag að 50 ár eru liðin frá því að eldgosið í Vestmannaeyjum hófst. Allir sem hafa aldur og minni til rifja í huganum upp daginn sem fréttirnar bárust og það sem síðar gerðist. Vestmannaeyjar lifðu svo sannarlega eins og Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra boðaði eftirminnilega í þingumræðum um ráðstafanir vegna gossins.

B704a3af-37c6-426d-9477-66ed556a250fÓlafur K. Magnússon, ljósmyndari Morgunblaðsins, tók þessa mynd af hraunkækingarmönnum í Eyjum 1973.

IMG_6434Hér má sjá stút af hraunkælingardælu.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag (23. janúar) segir Vestmanneyingurinn Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, að „hefði mælitækni og vísindaleg þekking í jarðfræði verið hin sama árið 1973 og er nú, hefði Heimaey verið rýmd í hið minnsta sólarhring áður en eldgos þar hófst aðfaranótt 23. janúar 1973. Í aðdraganda gossins varð vart jarðskjálftakippa og titrings í jörðu, sem ekki var greint hvers eðlis væru. Nú væri slíkt gerlegt og viðbrögð yrðu samkvæmt því“.

Víðir var í hópi um 5.000 íbúa í Vestmannaeyjum sem flúðu eldgosið á sínum tíma; fór með móður sinni og systkinum upp á fastalandið með fiskibát og út í algjöra óvissu, segir í forsíðufrétt Sigurðar Boga Sævarssonar.

Í fylgiblaði Morgunblaðsins vegna gossins ræðir Sigurður Bogi við Pál Einarsson jarðeðlisfræðing um sjókælinguna á glóandi Eyjahrauninu að að ráðum dr. Þorbjörns Sigurbjörnssonar eðlisfræðings. Var höfuðáhersla lögð á að hraunið lokaði ekki höfninni í Eyjum. Fengnar voru öflugar dælur frá Bandaríkjunum og fylgdist alþjóð með þegar flutningavélar hers þeirra lentu á Vestmannaeyjaflugvelli. Hraunkælingin gaf góða raun þegar miklu magni af sjó var dælt á hraunkantinn til að stýra hraunrennslinu.

Páll segir að hraunkælingin hafi skilað mikilvægri reynslu en henni hafi lítið verið beitt annars staðar enda séu aðstæður óvíða þannig „að hraun falli í sjó fram eða vötn, eins og þarna gerðist“.

Páll Einarsson bendir einnig á að undanförnum 50 árum hafi jarðvísindin „gjörbreyst og miklar vísindalegar framfarir átt sér stað“. Á síðustu áratugum hafi „hver tæknibyltingin rekið aðra, einkum á sviði fjarkönnunar og skjálftamælinga, tækni sem er lykillinn að því að vakta megi eldstöðvar af þeirri nákvæmni sem nú er gert“.

Tilvitnanirnar í Víði og Pál hefa til kynna að fyrirvari vegna eldsumbrota hafi lengst og þar með ráðrúm til viðbragða. Ekkert er þó unnt að segja fyrir fram með neinni vissu þegar móðir jörð lætur til sín taka og á það við um alla náttúruvá: jarðskjálfta, eldgos eða loftslagsbreytingar. Aldrei á þó að hafa vísindaleg ráð að engu þótt um forsendur þeirra og réttmæti hljóti að verða rætt.

Þegar litið er til baka og hugað að giftusamlegri björgun Vestmanneyinga á ögurstundu er auðvelt að álykta að einstök blessun hafi hvílt yfir íbúunum þar aðfaranótt 23. janúar 1973. Sömu sögu er að segja um endurreisnina og mannlífið sem þar blómstrar nú um þessar mundir.