28.6.2019 10:09

Evrópuráðið „leikfang“ kúgunarríkja

Þetta er stórslys fyrir Evrópuráðið en stórsigur fyrir Rússa í utanríkismálum segir Stiglmayer.

Alexandra Stiglmayer, sérfræðingur við hugveituna European Stability Initiative í Berlín, sem fylgist með gangi mála innan Evrópuráðsins, birtir úttekt á EUobserver-vefsíðunni fimmtudaginn 27. júní þar sem hún fjallar um endurkomu rússneskra þingmanna á Evrópuráðsþingið.

Í stuttu máli telur hún mikið óheillaverk hafa verið unnið með því að „færa Evrópuráðið Rússum“ eins og hún orðar það. Þetta sé gert þrátt fyrir nýlegar árásir þeirra á sjúkrahús í Sýrlandi, undirróðursstarfsemi í ESB-þingkosningunum í maí og þá staðreynd að hollenskir saksóknarar hafi ákært þrjá Rússa og einn Úkraínumann fyrir að myrða 298 manns með því að granda farþegavélinni MH17 yfir Úkraínu árið 2014.

Þetta er stórslys fyrir Evrópuráðið en stórsigur fyrir Rússa í utanríkismálum segir Stiglmayer. Nú láti þeir einfaldlega alla gagnrýni á brot þeirra gegn mannréttindum og réttarríkinu sem vind um eyru þjóta. Þá sé líklegt að þeir slái skjaldborg um bandamenn sína innan ráðsins sem beita pyntingum, fangelsa stjórnarandstæðinga og stunda kosningasvindl.

2f9618d7a78c989b5605190eee0ac9eb-800xHöfuðstöðvar Evrópuráðsins í Strassborg.

Þeir muni krefjast að ríkt tillit sé tekið til sín við allar ákvarðanir um forystu við stjórn Evrópuráðsins. Fyrr á árinu hafi Rússar komið í veg fyrir að Andrius Kubilius, fyrrv. forsætisráðherra Litháens, byði sig fram sem framkvæmdastjóri Evrópuráðsins. Miðvikudaginn 26. júní var Marija Pejcinovic, utanríkisráðherra Króatíu, kjörin í embættið.

Rússar voru sviptir atkvæðisrétti á Evrópuráðsþinginu eftir innlimun þeirra á Krímskaga vorið 2014 og hernaðarbrölt þeirra gegn Úkraínumönnum. Árið 2016 sögðust þeir ekki taka þátt í þingstörfunum að nýju nema afmáð yrðu í eitt skipti fyrir öll ákvæði sem heimila að svipta þingmenn eins ríkis atkvæðisrétti á þinginu í Strassborg. Árið 2017 hættu Rússar að greiða árgjald til Evrópuráðsins, 33 milljónir evra, 7% af fjárlögum Evrópuráðsins. Árið 2018 sögðust Rússar ætla að hverfa úr ráðinu yrði ekki farið að kröfum þeirra.

Vegna þessara hótana tóku Thorbjörn Jagland, fráfarandi framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, og ríkisstjórnir Þýskalands og Frakklands að leita leiða til að blíðka Rússa.

Í október 2018 kynntu þeir sem vildu hafa Rússa góða það sem Stiglmayer kallar „gallað lögfræðiálit“ þar sem tekið var undir það sjónarmið Rússa að það væri í andstöðu við stofnskrá Evrópuráðsins að Evrópuráðsþingið hefði vald til að svipta þingmenn atkvæðisrétti. Ákvæði um þetta höfðu verið í gildi frá árinu 1985 og enginn dregið réttmæti þeirra í efa. Jagland gagnrýndi þingið fyrir framgönguna gegn Rússum, hún hefði ekki breytt neinu um afstöðu Rússa til Krímskaga eða stöðu mannréttinda innan Rússlands, hún hefði hins vegar valdið stórvandræðum innan Evrópuráðsins!

Eftir að Evrópuráðsþingið hafði samþykkt endurkomu Rússa sendi Memorial, ein virtustu sjálfstæðu mannréttindasamtök Rússlands, frá sér yfirlýsingu þar sem ákvörðun þingsins er gagnrýnd, einhliða ívilnanir í garð Rússa án þess að þeir breyti afstöðu sinni á nokkurn hátt hafi óhjákvæmilega í för með sér hörmulegar afleiðingar innan þeirra alþjóðastofnana sem gæta eigi mannréttinda. Ákvarðanir þingsins muni því valda Rússum skaða þegar fram líði stundir.

Stiglmayer tekur undir þetta mat Memorial. Hún segir að uppgjöfin gagnvart Rússum valdi því að Evrópuráðið verði í raun marklaust á sama tíma og það sé í tísku að gera athugasemdir við hvernig staðið er að vernd mannréttinda eða sjálfstæði dómstóla.

„Evrópsk lýðræðisríki hafa aldrei haft meiri þörf fyrir öflugar mannréttindastonfanir en núna. Þetta krefst þess að þau losi sig við þau aðildarríki sem brjóta grundvallaratriði þeirra. Nú hafa þau leikfang kúgunarríkja í höndunum,“ segir Alexandra Stiglmayer í lok greinar sinnar.