9.5.2021 11:02

Evrópudagurinn

Með Schuman-yfirlýsingunni 9. maí 1950 hófst samrunaþróun í Evrópu sem á ensku er nefnd European project og er ekki enn lokið.

Á árum áður var Evrópufáninn, fagurblár með gylltum stjörnuhring, dreginn að húni víða hér á landi 5. maí til að minnast þess að þann dag árið 1949 var Evrópuráðið stofnað. Evrópuráðið starfar enn og gyllti stjörnuhringurinn á bláum feldi er enn merki þess.

Evrópusambandið gerði 9. maí að Evrópudegi sínum á árinu. Dagurinn var valinn vegna þess að 9. maí árið 1950 boðaði Robert Schuman, þáverandi utanríkisráðherra Frakklands, upphaf nýrrar Evrópu á grunni samstöðu og friðar með Vestur-Þjóðverjum og öðrum Evrópuþjóðum. Schuman lagði til að stofnuð yrðu yfirþjóðleg samtök sem færu með forræði allra kola- og stálauðlinda í aðildarlöndunum. Vildi hann að auk Frakka og Þjóðverja yrðu Ítalir, Hollendingar, Belgar og Lúxemborgarar einnig í þessu bandalagi – nokkrum árum síðar, 1957, rituðu fulltrúar þjóðanna undir Rómarsáttmálann, stofnskrá þess sem nú er Evrópusambandið.

773x435_cmsv2_16416fcc-1b84-57c7-a0e7-e7d71549d340-5627308Franski embættismaðurinn Jean Monnet aflaði hugmyndinni um kola- og stálsambandið stuðnings í viðræðum á bak við tjöldin. Nafn hans lifir enn á vettvangi ESB. Má þar nefna Jean Monnet-áætlunina til stuðnings kennslu og rannsóknum á helstu kenningum um Evrópusamrunann og breytingum á þróun hans í áranna rás með upptöku sameiginlegs gjaldmiðils, stækkun ESB til austurs, mótun sameiginlegrar utanríkisstefnu og sáttmálabreytingum. Fræðimenn við Háskóla Íslands njóta Jean Monnet-styrkja.

Með Schuman-yfirlýsingunni 9. maí 1950 hófst samrunaþróun í Evrópu sem á ensku er nefnd European project og er ekki enn lokið. Grundvallarágreiningur er um hvort stofna eigi sambandsríki Evrópu eða viðhalda ríkjasambandi Evrópuþjóða eins og nú er. Víða hafa myndast grá svæði sem eru undirrót átaka innan ESB. Þau birtast m.a. núna við framsal valds til framkvæmdastjórnar ESB við ráðstöfun fjármuna einstakra þátttökuþjóða. Vegna COVID-19-faraldursins var komið á fót evru-björgunarsjóði. Óljóst er hvort þátttaka í honum brýtur gegn ákvæðum þýsku stjórnarskrárinnar.

Evrópudagurinn 9. maí 2021 er upphafsdagur ráðstefnu um framtíð Evrópu, það er átaks sem stendur í eitt ár og beinist að því að virkja almenning til stuðnings ESB-samstarfinu með umræðum, fundum og ráðstefnum.

Árið 1985 ákvað ESB að stofna til sameiginlegs Evrópumarkaðar og gerðist Ísland aðili að honum 1. janúar 1994 á grundvelli EES-samningsins. Árið 1992 kom Maaastricht-sáttmálinn til sögunnar á grundvelli Rómarsáttmálans og þá varð European Union ­– Evrópusambandið (ESB) – til með þátttöku 12 ríkja. Aðildarþjóðirnar eru nú 27 eftir að Bretar sögðu sig úr ESB í fyrra.

Markmið þeirra sem boða til ráðstefnunnar sem sett verður í Strassborg í dag er að með henni verði lagður grunnur að framtíðarskipan ESB. Nýleg könnun sýnir hins vegar að 48% íbúa í ESB-löndunum vilja ekki taka þátt í ráðstefnunni. Brautin er því greinilega ekki bein og greiðfarin við ráðstefnuhald í eitt ár um framtíð ESB. Innan sambandsins ríkir ekki samhugur og hann minnkaði vegna ráðaleysis andspænis COVID-19-faraldrinum.