18.10.2020 10:28

Evrópudagur gegn mansali

Barátta EUROPOL gegn mansali er nátengd starfi Evrópulögreglunnar til að berjast gegn skipulögðum glæpahópum að baki smygli á fólki almennt til Evrópu og innan álfunnar.

Í dag sunnudaginn 18. október er Evrópudagur gegn mansali. Evrópuráðið sendi frá sér sérstaka yfirlýsingu í tilefni dagsins þar sem hvatt er til sérstakrar varkárni vegna afleiðinga COVID-19-faraldursins sem hafi að líkindum langvinn samfélagsleg áhrif, auki ójöfnuð og fátækt um heim allan. Þá aukist hættan á að varnarlaust fólk verði misnotað meðal annars af glæpahópum sem stunda mansal.

EUROPOL, Evrópulögreglan, sendi einnig frá sér yfirlýsingu um mansal í tilefni dagsins. Þar er bent á að nútíma fjarskiptatækni – netið, samfélagsmiðlar, farsímatæki – hafi haft mikil áhrif á starfsemi skipulagðra glæpahópa sem stundi mansal. Tæknin auðveldi glæpamönnunum að stunda mansal á víðtækari hátt en áður, það nái meðal annars til kynlífsiðnar og annarrar atvinnustarfsemi, sama sé að segja um töku líffæra úr fólki, ólöglegar ættleiðingar og nauðungarhjónabönd.

Traffic_900Mansalsþrjótar beiti einnig fjarskiptatækninni til að ná tökum á fórnarlömbum sínum, auglýst sé eftir þeim í netheimum og þau ráðin þar, þau séu beitt nauðung með birtingu ljósmynda og myndskeiða auk þess sem fylgst sé með öllum ferðum þeirra. EUROPOL telur að ekki verði snúist gegn þessari glæpastarfsemi af þeim þunga sem er nauðsynlegur nema þjóðir taki höndum saman og safnað sé öllum tiltækum upplýsingum til að átta sig á hvernig þessi starfsemi tengist yfir landamæri ríkja.

Barátta EUROPOL gegn mansali er nátengd starfi Evrópulögreglunnar til að berjast gegn skipulögðum glæpahópum að baki smygli á fólki almennt til Evrópu og innan álfunnar. Árið 2016 stofnaði EUROPOL sérstaka miðstöð, European Migrant Smuggling Centre (EMSC), til að takast á við þennan vanda í samvinnu við aðildarríkin.

Íslensk stjórnvöld sæta ár eftir ár gagnrýni á alþjóðavettvangi vegna þess að ekki sé staðið nægilega skipulega að vörnum gegn mansali hér á landi. Þegar sagt er frá gagnrýni á hvernig að þessum málið er staðið hér verða tímabundnar yfirborðsumræður um málið. Þær bera þess merki að forðast er að ræða kjarna vandans, að landamæravörslu er ekki sinnt af þeim þunga sem þarf til að hafa betur en glæpamennirnir sem standa að baki því að senda fólk nauðugt viljugt hingað til lands eins og til annarra landa.

Dæmi um yfirborðskenndar umræður um þetta alvörumál birtist hjá fréttastofu ríkisútvarpsins um þessar mundir þegar rætt er við forystumenn í Sjálfstæðisflokknum vegna þess að Ásmundur Friðriksson, þingmaður flokksins, birtir á Facebook-síðu sinni tölur um komu hælisleitenda hingað á COVID-19-tímum. Tölurnar fær Ásmundur frá ónafngreindum heimildarmanni á Keflavíkurflugvelli, uppljóstrara. Fréttastofan segir á ruv.is laugardaginn 17. október:

„Ásmundur nefnir tölur um fjölda hælisleitenda sem hann segir vera um borð, en gefur ekki upp hvaðan þessar upplýsingar koma. Hann birtir líka óstaðfestar tölur um kostnað vegna hvers hælisleitanda.“

Fréttamaður ríkisútvarpsins spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra af þessu tilefni: „Eigum við þá að taka á móti færri hælisleitendum og senda þá aftur til baka vegna þess að staða ríkissjóðs er ekki nægilega góð?“

Viðhorf þeirra sem gagnrýna Ásmund Friðriksson fyrir að birtar tölur um hælisleitendur á síðu sinni gleður vafalaust þá sem helst er varað við á Evrópudeginum gegn mansali.