8.8.2019 9:39

ESB stefnir Belgum vegna orkupakka

Ástæðan fyrir að minnst er á þetta mál ESB gegn Belgíu hér er að andstæðingar þriðja orkupakkans á Íslandi leitast við að nýta sér það í baráttu sinni.

Framkvæmdastjórn ESB telur að ekki hafi verið rétt staðið að innleiðingu þriðja orkupakkans í Belgíu. Eftirlitsstofnun í Belgíu hafi ekki vald til að taka endanlegar ákvarðanir gagnvart raforku- og gasfyrirtækjum heldur takmarkist vald hennar við að gera tillögur til ríkisstjórnarinnar um töku slíkra ákvarðana. Þá komi það í hlut ríkisstjórnarinnar að setja skilyrði fyrir því hvernig tengingum við raforku- og gaskerfi sé háttað en ekki eftirlitsaðilans eins og gert sé ráð fyrir í ESB-orkulöggjöfinni. Þá sé ekki heldur að finna í belgískum lögum tryggingu fyrir því að stjórnendur orkuflutningskerfa hafi stjórn á öllu raforku- og gaskerfinu sem undir þá heyra og því megi draga í efa að þeir hafi fullt vald til að tryggja jafnan aðgang raforku- og gasbirgja að flutningsnetinu.

BelgiumFramkvæmdastjórnin sendi formlega viðvörun um þetta mál til ríkisstjórnar Belgíu í október 2014, síðan rökstudda athugasemd í febrúar 2016. Þar sem belgíska ríkisstjórnin brást ekki við þessum aðfinnslum var málinu skotið til ESB-dómstólsins 25. júlí 2019.

Í málinu kristallast það sem einkennir evrópska orkumarkaðinn. Skil eru gerð milli flutningsaðila og orkuframleiðanda og sjálfstæður þriðji aðili sér til þess að farið sé að settum leikreglum. Eftirlitsaðilinn á ekki að lúta boðvaldi stjórnvalda til að hindra að önnur sjónarmið en þau sem ráðast af forsendum settra markaðs- og tæknireglna gildi. Sætti menn sig ekki við niðurstöðu eftirlitsaðilans á heimavelli skulu þeir innan gagnsæs kerfis hafa tækifæri til að áfrýja ákvörðun hans til dómstóla eða annars sjálfstæðs aðila.

Ástæðan fyrir að minnst er á þetta mál ESB gegn Belgíu hér er að andstæðingar þriðja orkupakkans á Íslandi leitast við að nýta sér það í baráttu sinni. Frásögn af því má sjá á mbl.is og í Morgunblaðinu í dag (8. ágúst) eftir Hjört J. Guðmundsson blaðamann.

Í frásögninni kemur fram að jafna megi þessari málssókn ESB gegn Belgum við hugsanlega málssókn sæstrengseiganda gegn Íslendingum fái hann ekki strenginn tengdan hér. Þessi samanburður er reistur á þeim meginrökum andstæðinga þriðja orkupakkans að hingað komi sæstrengur hvað sem menn segja, að öðrum kosti sitji Íslendingar uppi með himinháar skaðabótakröfur.

Eina lagabreytingin sem hér verður gerð til innleiðingar á þriðja orkupakkanum er hins vegar einmitt að auka sjálfstæði Orkustofnunar sem eftirlitsaðila með framkvæmd orkumála á innlendum vettvangi. Lagt er til að kveðið verði skýrt á um að stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar séu annaðhvort kæranlegar til úrskurðarnefndar raforkumála eða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kæruheimild til ráðherra er felld niður.

Að gera því skóna að Ísland lendi í sömu sporum gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og Belgar gagnvart framkvæmdastjórn ESB vegna innleiðingar þriðja orkupakkans er liður í orrahríð þar sem skilin milli óskhyggju og staðreynda verða að gráu svæði með spurningum eins og þessari: Verður mál höfðað gegn Íslandi?