ESB-skjálfti vegna vaxta
Nú er að sjá hvernig hún stendur af sér þrýsting ESB-aðildarsinnanna í Samfylkingunni vegna vaxtahækkunarinnar sem seðlabankastjórinn kynnti miðvikudaginn 24. maí.
Þegar eitthvað gerist sem veldur uppnámi innan lands eða utan bregst ákveðinn hópur fólks við með kröfu um að hafnar verði umræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Öllu öðru er kastað frá sér.
Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022 taldi Viðreisnarforystan að þá þyrfti að hefja umræður um ESB-aðild. Það hlaut hins vegar engan hljómgrunn enda vandséð að það styrkti öryggi Íslands.
Lengst gekk þetta ESB-aðildartal haustið 2008 þegar bankarnir hrundu og lyktaði því á þann veg að Samfylkingin og VG töldu sig fá umboð kjósenda til að sækja um aðild í þingkosningum vorið 2009.
Aðildarumsóknin var samþykkt á þingi í júlí 2009 og viðræður hófust við ESB. Um það var deilt hvort þetta væru samningaviðræður eða aðlögunarviðræður. Í ljós kom að málið snerist ekki um að Íslendingar gætu samið um einhverjar breytingar á því sem fyrir var innan ESB. Þeir urðu einfaldlega að laga sig að þeim skilyrðum sem ESB setti, spurningin snerist um hvað þeir fengju langan tíma til þess. Fór svo að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra batt enda á viðræðurnar í janúar 2013 í von um að þær bæri ekki hátt í kosningabaráttunni þá um vorið.
Stjórnarflokkarnir fengu slæma útreið í kosningunum og þess var minnst nú í vikunni að 10 ár væru liðin frá því að Sjálfstæðisflokkurinn fékk að nýju ráðherra í ríkisstjórn og Bjarni Benediktsson, flokksformaður varð fjármálaráðherra. Samfylkingin hefur verið í 10 ár utan ríkisstjórnar og skipt nokkrum sinnum um formann á þeim áratug.
Kristrún Frostadóttir var ein til formannsframboðs í Samfylkingunni í fyrra og boðaði þá að ESB-aðildarstefnan viki fyrir öðrum brýnni málum.
Nú er að sjá hvernig hún stendur af sér þrýsting ESB-aðildarsinnanna í Samfylkingunni vegna vaxtahækkunarinnar sem seðlabankastjórinn kynnti miðvikudaginn 24. maí. Við tilkynninguna varð pólitískur jarðskjálfti sem kallaði fram ESB-aðildarviðbrögð hjá ýmsum innan flokksins.
Þeir sem hæst tala láta eins og þeir þurfi ekki annað en veifa fána sínum til að lið Samfylkingarinnar safnist undir hann og stormað verði inn í skjól virkisins í Brussel.
Þeir gleyma því að hér á landi hafa allir flokkar sameinast um að ekki verði gengið til aðildar að ESB nema stjórnarskránni verði breytt og enginn flokkur vill hefja aðildarviðræður án þess að hafa fyrst til þess umboð frá þjóðinni í sérstakri atkvæðagreiðslu.
Að hefja umræður um ESB-aðild núna vegna vaxtahækkunar seðlabankans er ekki annað en flótti frá umræðum um vanda líðandi stundar og höfuðverkefnið, að koma böndum á verðbólguna.