25.11.2018 11:03

ESB samþykkir Brexit – plan B er EES-leið

Leiðtogar 27 ESB-ríkjanna hittust á fundi í Brussel að morgni sunnudags 25. nóvember og samþykktu samkomulag um útgönguleið Breta úr ESB.

Leiðtogar 27 ESB-ríkjanna hittust á fundi í Brussel að morgni sunnudags 25. nóvember og samþykktu samkomulag um útgönguleið Breta úr ESB. Um er að ræða 585 bls. skjal sem segir hvernig staðið skuli að úrsögn Breta úr ESB (Brexit) 29. mars 2019 og pólitíska stefnuyfirlýsingu.

Umþóttunartími Breta gagnvart ESB stendur frá 29. mars 2019 til 31, desember 2020. Á þeim tíma verður unnið  að viðskiptasamningi milli Breta og ESB og fyrirtækjum gefst færi á að laga sig að breytingunni. Verði útgöngusamningurinn samþykktur verða engar stórvægilegar breytingar á þessum tíma.

Með niðurstöðu fundarins hefst nýr áfangi í útgöngu Breta. Theresa May forsætisráðherra skrifaði opið bréf til bresku þjóðarinnar sem birtist í blöðum landsins í dag (25. nóvember). Þar hvetur hún til stuðnings við niðurstöðuna sem hefur náðst í samningaviðræðum sem staðið hafa í rúmlega 17 mánuði.

Theresa-may-brussels-portal-xlargeTheresa May á leið til fundar við ESB-leiðtoga 25. nóvember.

Þetta hafa verið átakamánuðir milli viðræðuaðila og innan breska Íhaldsflokksins og ríkisstjórnar May. Næst verður May að tryggja meirihluta við niðurstöðuna á breska þinginu. Niðurstaðan fer einnig til afgreiðslu í þjóðþingum eða öðrum stofnunum ESB-ríkjanna 27. Ekkert ríki hefur neitunarvald en 20 af 27 ríkjum þurfa að segja já. Lokaatkvæðagreiðsla fer fram í ESB-þinginu, væntanlega í mars 2019.

Þegar rætt var við leiðtoga einstakra ESB-ríkja í morgun voru þeir sammála um að niðurstaðan væri í raun engum til góðs því að bæði Bretar og ESB-þjóðirnar töpuðu á úrsögninni.

Á lokastigum málsins bar stöðu Norður-Írlands og Gíbraltar hæst. Bretar vilja ekki að Brexit verði til þess að Norður-Írland verði klofið frá Sameinaða konungdæminu. Þá vilja þeir að Gíbraltar verði áfram í sérstöku sambandi við Bretland. Ríkisstjórnir Írska lýðveldisins og Spánar hótuðu að beita neitunarvaldi í leiðtogaráði ESB væri ekki tekið tillit til séróska þeirra. Lokaniðurstaðan vegna Gíbraltar náðist ekki fyrr en á fundi May og Jean-Claude Junckers síðdegis laugardaginn 24. nóvember.

Meirihluti ríkisstjórnar May veltur á stuðningi þingmanna frá Norður-Írlandi í DUP-flokknum. Flokkurinn vill alls ekki að sambandið við Bretland rofni. Þingmenn hans hafa lýst efasemdum um útgöngu-samkomulagið.

Á vefsíðu The Telegraph segir sunnudaginn 25. nóvember að á bakvið tjöldin hafi fulltrúar bresku ríkisstjórnarinnar og ESB gert leynilegt plan B um hvað gerist felli breska þingið þá niðurstöðu sem ESB-leiðtogaráðið hefur nú samþykkt. Hún feli í sér EES-lausn.