13.3.2022 14:50

ESB og „umbótaflokkarnir“

Nú kemur í ljós hvort Inga Sæland telur ályktun um ESB-aðild stuðla að þeirri samstöðu sem Logi Einarsson segir ríkja meðal „umbótaflokkanna“.

Samfylkingin efndi laugardaginn 12. mars til fyrsta flokksstjórnarfundar síns eftir þingkosningarnar 25. september. Úrslit kosninganna urðu vonbrigði fyrir flokkinn. Hann fékk aðeins 9,9% atkvæða, tapaði 2,2 prósentustigum, fékk 6 þingmenn í stað 7 áður. Samfylkingin er með jafnmarga þingmenn og Flokkur fólksins og Píratar.

Í kosningabaráttunni hamraði Logi Einarsson flokksformaður á því að hann vildi ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn að kosningum loknum. Hann veðjaði greinilega á að Vinstri-grænir (VG) mundu snúast á þessa sveif með honum.

Í ræðu á flokksstjórnarfundinum sagði Logi:

„Barnaleg tiltrú okkar á að Vinstri-græn hefðu raunverulegan áhuga á ríkisstjórnarsamstarfi til vinstri – reyndust því ein okkar stærstu mistök.“

Logi sagði einnig: „Og þar ber ég að sjálfsögðu ábyrgð.“

Flokksformaðurinn gaf þó ekki til kynna að hann ætlaði að axla þessa ábyrgð með því að segja af sér formennsku. Innan sífellt fámennari raða flokksins gætir þó æ meiri óþreyju eftir að Logi búi flokksmenn undir róttækar breytingar á forystunni.

Í stað þess dró hann þann lærdóm af þingkosningunum „að umbótaflokkar frá miðju til vinstri verð[i] að koma sér upp nýju leikskipulagi – verða valkostur“. Þetta er sem sagt ekki vandamál Loga og Samfylkingarinnar heldur misheppnað „leikskipulag“ , hvað sem það nú þýðir í þessu samhengi.

Honum finnst umhugsunarvert ef „félagshyggjuflokkarnir verða til lengri tíma áfram sitt hvorum megin víglínu íslenskra stjórnmála“. Í þessum orðum felst enn ein sönnun þess að á 22 árum hefur Samfylkingunni mistekist að verða „félagshyggjuflokkurinn“ sem átti að ýta Sjálfstæðisflokknum til hliðar.

Logi_og_inga_original_2.width-720Þessi mynd af Ingu Sæland og Loga Einarssyni birtist á FB-síðu Loga.

Samfylkingin sat í stjórn með Sjálfstæðisflokknum í tæp tvö ár 2007 til 2009. Síðan tók við „hrein vinstri stjórn“ með VG undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur. Segja má að þar hafi allt farið í handaskolum og komu flokkarnir báðir mjög laskaðir frá þingkosningum 2013. Samfylkingin hefur ekki náð vopnum sínum síðan en VG verið treyst fyrir forsæti í tveimur ríkisstjórnum.

Það er mjög eðlilegt að VG forðist Samfylkinguna miðað við reynsluna 2009-13.

Nú talar Logi um „umbótaflokka“ í stjórnarandstöðu og krefst þar forystu. Eigi einhver réttmæta kröfu um forystuhlutverk meðal stjórnarandstöðuflokkanna í ljósi kosningaúrslitanna í september er það Inga Sæland og Flokkur fólksins, hún bætti við 1,9 prósentustigi og tveimur þingmönnum.

Inga Sæland og flokksbróðir hennar Guðmundur Ingi Kristinsson lögðu oftar en einu sinni fram tillögu á síðasta kjörtímabili um að alþingi ályktaði „að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu“.

Flokkastjórn Samfylkingarinnar lagði 12. mars 2022 „þunga áherslu á að hefja aðildarviðræður á ný við ESB að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu“.

Nú kemur í ljós hvort Inga Sæland telur ályktun í þessa veru stuðla að þeirri samstöðu sem Logi Einarsson segir ríkja meðal „umbótaflokkanna“.