29.8.2017 9:29

ESB leikur sér að Bretum

Bretar eru berskjaldaðir gagnvart ESB. Í Bretlandi fara fram opnar, lýðræðislegar umræður á stjórnmálavettvangi en innan ESB ríkir leyndarhyggja.

Breski Verkamannaflokkurinn hefur nú kynnt stefnu vegna úrsagnar Breta úr ESB sem felur í sér einskonar aðild þeirra að EES, evrópska efnahagssvæðinu, að minnsta kosti um ákveðinn tíma. Þetta er það sem kallað er „mjúkt Brexit“ á fjölmiðla- og stjórnmálamáli.

Eitt af því sem talið var Lissabon-sáttmálanum til ágætis var að þar væri að finna ákvæði í 50. gr. um að þjóðir gætu sagt skilið við ESB. Líklega hefur enginn séð fyrir að úrsagnarferlið yrði mun flóknara en aðildarferlið þar sem einhliða skilyrði ESB ráða þótt ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. og íslenska utanríkisráðuneytið hafi ekki áttað sig á því. Lygarnar um aðildarskilmálana gerðu út af við Samfylkinguna en gátu af sér Viðreisn.

Stefnubreyting breska Verkamannaflokksins miðar fyrst og fremst að því að gera lífið erfiðara fyrir Íhaldsflokkinn og veikja stöðu stjórnar hans á þingi og gagnvart Brusselmönnum.  

Bretar eru berskjaldaðir gagnvart ESB. Í Bretlandi fara fram opnar, lýðræðislegar umræður á stjórnmálavettvangi en innan ESB ríkir leyndarhyggja. Í fremstu víglínu ESB eru embættismenn sem nýta sér ágreining meðal breskra stjórnmálamanna til að saka þá um að hafa ekkert fram að færa í viðræðunum. Þriðju viðræðulotu aðalfulltrúa Breta og ESB lauk í gær í illu milli þeirra á blaðamannafundi.

Í blaðagrein í dag vitnar William Hague, fyrrv. utanríkisráðherra Breta, í magnaða endurminningabók Yanis Varoufakis, fyrrv. fjármálaráðherra Grikkja, sem segir að hann hafi aldrei vitað hvar hann stóð gagnvart ESB, honum hafi verið kastað eins og bolta milli stjórnmálamanna og embættismanna. Varoufakis vissi að Þjóðverjar áttu alltaf síðasta orðið en þýskir stjórnmálamenn sögðu einfaldlega við hann að þeir gætu ekki gengið fram hjá „stofnununum“, það er þríeyki seðlabanka evrunnar, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og framkvæmdastjórnar ESB, sem fengu fyrirmæli frá stjórnmálamönnunum!

ESB hafði sterk ítök í grískum stjórnmálum og grískir embættismenn gengu erinda ESB. Að lokum var gengið svo hart að Varoufakis að hann hrökklaðist úr embætti. ESB hefur ítök í breskum stjórnmálum og breskir embættismenn ganga erinda ESB sem nýtir sér opna, breska stjórn- og lýðræðiskerfið til að veikja samningsstöðu bresku ríkisstjórnarinnar.

Í Grikklandi var markmið ESB að fæla aðrar þjóðir frá að segja sig frá evrunni. Í viðræðunum við Breta er markmið ESB að fæla aðrar þjóðir frá að segja skilið við ESB. Embættismenn ESB hafa engra annarra hagsmuna að gæta en að verja virkið í Brussel, eigin stöðu og vald, þá varðar ekkert um þjóðarhag. Bretar molna að innan frammi fyrir þessum kalda veruleika.