22.2.2021 10:56

ESB í vanda vegna frétta um AstraZeneca

Nú stendur ESB frammi fyrir gífurlegum fjárhagsvanda vegna tafanna á bólusetningu og neyðarsjóður þess tæmist fljótt.

Ambrose Evans-Pritchard, alþjóðaviðskipta-ritstjóri The Daily Telegraph, segir að upplýsingafalsanir á meginlandi Evrópu um AstraZneca-bóluefnið muni reynast dýrkeyptar fyrir þjóðirnar sem trúi falskenningunum.

Tugir milljónir manna hafi fengið AstraZeneca í Bretlandi og á Indlandi án þess að gert sé sérstakt veður vegna aukaverkana, minniháttar og æskileg merki séu um að ónæmiskerfið hafi verið virkjað. Þrátt fyrir þetta hafi framlínu-starfsmenn í heilbrigðiskerfum Þýskalands, Austurríkis, Frakklands og Spánar talið sér trú um að bóluefnið skaði þá fyrir utan að vera gagnslaust.

Falsfréttirnar um bóluefnið séu svo magnaðar í Þýskalandi að ekki verði við neitt ráðið, viðbrögðin jaðri við móðursýki. Á Herzogin-Elisabeth-sjúkrahúsinu í Braunschweig hafi 37 af 88 starfsmönnum verið frá vinnu vegna veikinda daginn eftir að hafa fengið sprautu. Sömu sögu sé að segja um fjórðung 300 bráðaliða í Dortmund.

Þýskir sérfræðingar telji að blekkingarnar um AstraZeneca geti leitt til þess að framkvæmd þýskra áætlana um bólusetningu lengist um tvo mánuði.

Ambrose Evans-Pritchard segir að þetta kunni að reynast dýrkeypt á sama tíma og útbreiðsla breska afbrigðis veirunnar sé að ná yfirhöndinni á meginlandinu. Nú sé staðan sú sama í Frakklandi og í desember í Bretlandi rétt áður en fleyghraði farsóttarinnar hófst. Sérfræðingar spái því að sama gerist í Frakklandi og Bretlandi nema strax sé gripið til harkalegra gagnaðgerða. Emmanuel Macron forseti neyðist kannski til að láta bólusetja með AstraZeneca. Hann hafi þó spillt fyrir sér með því að segja AstraZeneca „hálf-gagnslaust“ fyrir eldri en 65 ára. Þótt Þjóðverjar standi betur að vígi en Frakkar sé staða þeirra varasöm.

Engu skipti þótt árangurinn af fjölda-bólusetningu í Bretlandi sé miklu meiri en við var búist. Með AstraZeneca hafi nær algjörlega tekist að hindra dauðsföll eða alvarleg veikindi vegna veirunnar og vernda eldri borgara eins og ætlunin var án alvarlegra aukaverkana. Í Þýskalandi taki almenningur ekki mark á Christian Drosten prófessor helsta ráðgjafa Angelu Merkel kanslara sem reyni að vinda ofan af rangfærslunum. Fólk telji að sé virkni bóluefnisins 70% séu 30% óvarin. Væri það upplýst um að virknin gegn alvarlegum veikindum sé næstum 100% yrðu áhyggjurnar kannski minni.

Nú sé staðan þannig að Þjóðverjar hafi aðeins notað 87.000 af 736.800 AstraZenexa-skömmtum sem þeir hafa fengið og Spánverjar 35.000 af 418.000 skömmtum.

Ambrose Evans-Pritchard veltir fyrir sér kveikjunni að þessum dýrkeyptu fölsunum og segir að benda megi á Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, sem hafi gripið til þess ráðs í desember 2020 undir þungri gagnrýni vegna seinagangs í bólusetningu innan ESB að reyna að veikja tiltrú á breska lyfjaeftirlitið.

Nú standi ESB frammi fyrir gífurlegum fjárhagsvanda vegna tafanna á bólusetningu og neyðarsjóður þess tæmist fljótt sem leiði til mikilla pólitískra vandræða vegna þess að ríkin í norðurhluta ESB neiti að stækka sjóðinn.

Þetta er ófögur lýsing og ekki uppörvandi. Skyldu íslensk stjórnvöld hafa hugað að því að fá aukinn skammt af AstraZeneca hingað úr því að samstarfsþjóðirnar innan ESB fúlsa við bóluefninu?