14.9.2020 10:06

ESB/EES-skimun kínverskra fyrirtækja

Nú er unnið að því á ESB/EES-vettvangi að útfæra reglur um skimun á erlendum fjárfestum í því skyni að setja skorður við þeim sem njóta ríkisstuðnings.

Kínverska ríkisstjórnin lagði árið 2015 fram áætlun um að á tíu árum skyldi verða breyting á atvinnuháttum í landinu. Hætt yrði að framleiða ódýrar vörur eftir uppfinningum annarra og þess í stað yrðu Kínverjar heimsmeistarar í nýsköpun.

Frá því að þessi ákvörðun var tekin hafa stjórnvöld í Peking ráðstafað svimandi háum fjárhæðum til 10 forgangssviða þar sem forystu verði náð árið 2025 – þetta á við um vélmenni, orkutækni og háþróaða flutningatækni.

Í danska blaðinu Jyllands-Posten birtist mánudaginn 14. september úttekt sem sýnir að samhliða því sem unnið er að þessum markmiðum í Kína hafa kínversk fyrirtæki notið ríkisstuðnings til að kaupa evrópsk tæknifyrirtæki.

Bent er á að undanfarin ár hafi Kínverjar skapað sér strategíska stöðu með fjárfestingu í mannvirkjum. Ríkisrekna skipafélagið Cosco keypti meirihluta bréfa í stærstu höfn Grikklands árið 2016. Um svipað leyti fóru kínverskir fjárfestar eins og logi yfir akur í leit að vélmenna-framleiðendum í Þýskalandi, keyptu þeir meðal annars heimsþekkta fyrirtækið Kuka.

Kina-kinesiske-investorer-retter-interessen-mod-dansk-teknologi-fÞessi mynd birtist í Jyllands-Posten - Finans – og sýnir hvernig fjárfestingu Kínverja er háttað í Danmörku. Hún er mest í tæknifyrirtækjum í samræmi við stefnu kínverska kommúnistaflokksins um 10 ára fjárfestingarstefnu til að ná alþjóðlegu forskoti.

Danska blaðið segir að í Danmörku hafi ekki komið til þess að ákvörðunarvald yfir lykilstarfsemi hafi verið fært í hendur stórveldis með annað gildismat. Miklar umræður um stöðu Huawei-tækni- og fjarskiptarisans urðu eftir að fyrirtækið var valið til að stíga fyrstu skrefin til 5G-væðingarinnar. Víðtækar áhyggjur stjórnmálamanna og yfirvalda hafi þó fengið TDC-fyrirtækið, stærsta síma- og fjarskiptafyrirtæki Danmerkur, til að hverfa frá Huawei til Ericsson. Hér á landi heldur Síminn, stærsta fyrirtækið, sig að Ericsson, en NOVA og Vodafón halla sér að Huawei í 5G-væðingunni. Bandarískt fyrirtæki á þó hlut í NOVA.

Kínverjar hafa einkum sótt með meira en fjórðungseign inn í dönsk tæknifyrirtæki, þar á meðal þau sem vinna að þróun efnarafala (enska: fuel cell, danska: brændselscelle) sem framleiða rafmagn með sameiningu vetnis og súrefnis í rafefnafræðilegu ferli án bruna, grænum orkulausnum og hljóð- eða heyrnartækni.

Mikkel Vedby Rasmussen, deildarforseti félagsvísindadeildar Kaupmannahafnar-háskóla og sérfræðingur í öryggismálum, segir að almennt séu fjárfestingar Kínverja ekki þjóðaröryggisvandamál. Öðru máli gegni þó um kritisk infrastruktur (undir það fellur 5G) og tæknisvið sem ætlað er að skapa Dönum tekjur til framtíðar.

Nú er unnið að því á ESB/EES-vettvangi að útfæra reglur um skimun á erlendum fjárfestum í því skyni að setja skorður við þeim sem njóta ríkisstuðnings. Þá er einnig unnið að mótun reglna varðandi erlendan stuðning við rannsóknir og þróun í háskólum.

Markmiðið er að sambærilegar reglur gildi um kínversk fyrirtæki og evrópsk við fjárfestingar á ESB/EES-markaði Gagnsæi á að hindra samkeppnisforskot í krafti ríkisstuðnings á borð við það sem kínversk fyrirtæki njóta starfi þau á forgangssviðunum 10 sem kommúnistaflokkurinn ákvað árið 2015.