6.1.2020 11:01

ESB-dómstóllinn styður katalónska sjálfstæðissinna

Niðurstaða ESB-dómstólsins er áfall fyrir stjórnvöld í Madrid sem hafa beitt öllum ráðum til að brjóta sjálfstæðissinna á bak aftur.

Belgískur dómari felldi fimmtudaginn 2. janúar 2020 úr gildi handtökuskipun á hendur Carles Puigdemont, landflótta leiðtogi katalónskra sjálfstæðissinna. Yfirvöld á Spáni gáfu út skipunina en hæstiréttur Spánar dæmdi samstarfsmenn og skoðanabræður Puigdemonts í fangelsi. Einn þeirra, Oriol Junqueras, var kjörinn á ESB-þingið eins og Puigdemont í maí 2019. Hann kærði fangelsun sína til ESB-dómstólsins sem komst 19. desember 2019 að þeirri niðurstöðu að Junqueras nyti þinghelgi.

ESB-dómstóllinn hafnaði í reynd kröfu spænska ríkisins um að Puigdemont sneri til Spánar til að sverja eið að stjórnarskránni svo að hann hlyti rétt til setu á ESB-þinginu. Segir ESB-dómstóllinn að krafan samræmist ekki evrópskum reglum. Puigdemont heldur sig frá Spáni af ótta við að verða settur í fangelsi fari hann þangað. Hann krefst þess að Junqueras verði sleppt svo að hann geti sótt fundi ESB-þingsins.

W980-p16x9-02012020-Puigdemont-CominCarles Puigdemont og katalónskur flokksbróðir hans, Toni Comin, fagna niðurstöðu ESB-dómstólsins.

Ríkislögmaður Spánar hefur óskað eftir því við hæstarétt landsins að Junqueras verði heimilað að sækja fundi ESB-þingsins í fylgd varða sem sjái til þess að hann snúi aftur í fangaklefann milli þingfunda.

Niðurstaða ESB-dómstólsins er áfall fyrir stjórnvöld í Madrid sem hafa beitt öllum ráðum til að brjóta sjálfstæðissinna á bak aftur. Það kann þó að rofa til í samskiptum ríkisstjórnar spænskra sósíalista og katólanskra sjálfstæðissinna vegna ákvörðunar þeirra að veita stjórn sósíalista undir forsæti Pedros Sanchéz brautargengi í spænska þinginu með hjásetu. Vinstrisinnaði katalónski lýðveldisflokkurinn (ERC) á 13 þingmenn á spænska þinginu og ráða þeir úrslitum í atkvæðagreiðslu á þinginu í Madrid þriðjudaginn 6. janúar um hvort Sanchéz getur setið áfram eða ekki.

Framkvæmdastjórn ESB stóð fast að baki öllum ákvörðunum Spánarstjórnar gegn katalónskum sjálfstæðissinnum og var þá litið á aðildina að ESB sem staðfestingu á að réttmætt væri að standa fast gegn öllum sundrungaröflum. Niðurstaða ESB-dómstólsins sem styrkir stöðu sjálfstæðissinna kann að styrkja þá sem telja ESB-aðild Spánverjum ekki til framdráttar. Hingað til hefur verið látið eins og sjálfstæðiskröfur Katalóna væri spænskt vandamál sem bæri að leysa innan Spánar en ESB-dómstóllinn hefur nú varpað málinu inn á vettvang ESB og fulltrúar sjálfstæðissinna hafa ESB-þingið sem vettvang.

Katalónar og Baskar hafa ekki látið af sjálfstæðiskröfum sínum innan Spánar. Miðstjórnarvald landsins er ekki eins sterkt og stjórnarherrarnir í Madrid fullyrða. Sumir fréttaskýrendur segja að bera megi stöðuna á Spáni saman við það sem var þegar einstakar þjóðir innan Júgóslavíu fyrrverandi tóku stefnuna á sjálfstæði. Sjálfstæðisþróunin tók mörg ár og var ekki sársaukalaus.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ESB-dómstóllinn tekur aðra afstöðu til álitaefnis en stjórnarherrar ESB-ríkis óska. Hann hefur sett sjálfstæðismálin og lýðræðislegan rétt á Spáni í nýjan farveg og óvissan um hvert afstaða dómstólsins leiðir er mikil.