29.9.2018 11:13

Erlendir áhrifaþættir bankahrunsins greindir

Að taka saman fræðilega greinargerð um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins krefst þekkingar, yfirsýnar og alþjóðlegra tengsla.

Viðbrögðin eftir að Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands skilaði fjármála- og efnahagsráðuneytinu skýrslu um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins haustið 2008 þriðjudaginn 25. september snúa einkum að dr. Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni prófessor sem hafði „umsjón með [verkinu] fyrir hönd Félagsvísindastofnunar“ eins og segir í frétt fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Skýrslan er 210 bls. þar af eru 18 bls. skrá yfir heimildir. Þar er að finna ábendingar um gögn sem eru ómetanleg fyrir alla sem hafa áhuga á að skrifa um bankahrunið.

1086107Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tekur við skýrslu Félagsvísindastofnunar HÍ úr hendi dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors.

Að taka saman fræðilega greinargerð um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins krefst þekkingar, yfirsýnar og alþjóðlegra tengsla sem mótast af trausti í garð þess sem tekur að sér umsjón og ritun slíkrar skýrslu. Augljóst er að Hannes Hólmsteinn býr yfir öllu þessu. Gagnrýni á hann eftir að skýrslan birtist einkennist af persónulegri óvild.

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sem árum saman ritaði reglulega dálka í Fréttablaðið og bar meðal annars blak af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, eiganda þess og örlagavaldi í fjármálaheiminum í aðdraganda bankahrunsins, reið á vaðið í ræðustól alþingis miðvikudaginn 26. september undir liðnum Störf þingsins, og býsnaðist yfir að birst hefði mynd af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og dr. Hannesi við afhendingu skýrslunnar.

Erlendir áhrifaþættir bankahrunsins eiga að liggja í þagnargildi af því að Samfylkingunni hentar það. Flokkurinn átti þó aðild að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum þessa örlagadaga og fór með bankamál og utanríkismál.

Guðmundur Andri segir að vegna hrunsins höfum við öðlast vitneskju „um þær hörmungar sem reiðareksstefnan í efnahagsmálum og hömlulaus auðhyggja kallaði yfir land og þjóð“. Deilur um að koma böndum á „hömlulausa auðhyggju“ settu svip á stjórnmálin frá ársbyrjun 2003. Þá beitti Samfylkingin og Fréttablaðið sér í þágu útrásarinnar og auðhyggjunnar og gerðu árangurslausa sameiginlega tilraun til að koma Davíð Oddssyni og Sjálfstæðisflokknum frá völdum.

Lokaorð Guðmundar Andra eru: „jafnvel þótt greitt sé fyrir af almannafé“. Í þeim er tónn sem gefur til kynna að þeir sem fá ritlaun af almannafé eigi að skila efni sem falli að einhverri viðtekinni skoðun. Engin slík skilyrði eru sett vegna starfslauna rithöfunda eins og Guðmundur Andri þekkir. Nú þegar í bígerð er að stofna mörg hundruð milljón króna sjóð til að styrkja bókaútgáfu í landinu dettur vonandi engum í hug að setja sem skilyrði að aðeins sé styrkt og samið efni sem fellur Samfylkingunni í geð.