28.11.2020 9:44

Enn um ranghugmyndir dr. Ólínu

Undir lok greinar sinnar víkur Hannes Hólmsteinn að því atriði sem ég hef rætt vegna ásakana dr. Ólínu um að faðir minn hafi beitt sér gegn útgáfu bóka Laxness í Bandaríkjunum.

Hér hef ég getið um greinar sem birst hafa í Morgunblaðinu vegna greinar sem ég skrifaði í blaðið 29. október um bók dr. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur Spegil fyrir skuggabaldur. Í greininni sagði ég meðal annars:

„Hún rifjar upp að á liðnu sumri var lagt að jöfnu skatta- og gjaldeyrismál gegn Halldóri Laxness rithöfundi í kringum 1950 sem lauk með greiðslu sekta og að Þorvaldur Gylfason prófessor yrði ekki ritstjóri norræns tímarits um efnahagsmál. Var fullyrt að íslensk stjórnvöld hefðu viljað hindra sölu bóka Laxness í Bandaríkjunum í lok fimmta áratugarins. Þetta á ekki við nein rök að styðjast.“

Föstudaginn 27. nóvember tekur Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor sem ritað hefur ævisögu Halldórs Laxness í þremur bindum til máls í Morgunblaðinu. Í upphafi greinar sinnar lýsir hann efni hennar á þennan hátt:

„Vandséð er, hvaða greiði Halldóri Laxness er gerður með því að efna til umræðna um skattframtöl hans og gjaldeyrisskil á fimmta áratug síðustu aldar, en upp komst árið 1947, að hann hefði brotið þágildandi reglur á Íslandi og hvorki talið hér fram tekjur sínar í Bandaríkjunum né skilað gjaldeyri, sem hann hafði aflað sér þar vestra. Hafði talsvert selst 1946 af Sjálfstæðu fólki, sem Alfred Knopf gaf þá út í enskri þýðingu, ekki síst vegna þess að hún var einn mánuðinn valbók í hinu fjölmenna Mánaðarritafélagi (Book-of-the-Month Club). Segi ég frá þessum málum í þriðja bindi verks míns um Laxness, sem kom út 2005.“

IMGP5197Þegar Magnús Magnússon, sjónvarpsmaður í Bretlandi, tók til við að þýða Laxness á ensku undir lok sjötta áratugarins, fóru bækur hans að koma út á því tungumáli eftir langt hlé, t.d. Atómstöðin 1961 í Bretlandi og 1982 í Bandaríkjunum.

Undir lok greinar sinnar víkur Hannes Hólmsteinn að því atriði sem ég hef rætt vegna ásakana dr. Ólínu um að faðir minn hafi beitt sér gegn útgáfu bóka Laxness í Bandaríkjunum. Hann segir:

„Því er til að svara, að engin gögn hafa fundist um það. Um er að ræða órökstuddar getgátur, eins og Halldór [Guðmundsson] viðurkennir [sjá hér] raunar í grein sinni hér í blaðinu miðvikudaginn 25. nóvember.

Er líklegt, að útgefandi Laxness, Alfred Knopf, hafi ákveðið að gefa ekki út fleiri bækur Laxness vegna þeirra fyrirspurna, sem umboðsfyrirtæki skáldsins, Curtis Brown, og Mánaðarritafélaginu bárust um tekjur hans og skattgreiðslur? Óvíst er, að Knopf hafi vitað af þeim. Og jafnvel þótt hann hefði vitað af þeim tel ég líklegt, að hann hefði haldið áfram að gefa út bækur Laxness, hefði hann séð í því hagnaðarvon. Knopf var sami kapítalistinn og Laxness sjálfur. Og hefði hann sjálfur horfið frá því af stjórnmálaástæðum, þá hefðu aðrir væntanlega stokkið til eftir sömu forsendu, að þeir sæju í því hagnaðarvon. Árið 1988 kom út í Bandaríkjunum bók eftir einn menningarrýnenda New York Times, Herbert Mitgang, og var hún um eftirlit alríkislögreglunnar í kalda stríðinu með ýmsum rithöfundum og menntamönnum, sem hún taldi varhugaverða. Einn þeirra var Alfred Knopf. Af því tilefni ræddi New York Times 5. febrúar við son Knopfs, sem sagðist vera steinhissa á þessu.

„Hann var hinn dæmigerði kapítalisti,“ sagði hann um föður sinn. „En hann gaf út allt, sem honum fannst eiga erindi á prent. Hann skeytti engu um stjórnmálaskoðanir.“