19.12.2023 10:25

Enn gýs á Reykjanesi

Framvinda gossins er óljós. Mörgum er létt við að kvika streymi nú upp á yfirborðið og óvissa vegna frétta um ferðir hennar í iðrum jarðar sé úr sögunni. 

Eldgos hófst við Sundhnúkagígaröð, norðan við Grindavík, klukkan 22.17 að kvöldi mánudagsins 18. desember eftir skjálftahrinu sem hófst um klukkan 21.

Eldgosið var sagt mun kröftugra en þrjú fyrri gos á Reykjanesskaganum undanfarin þrjú ár. Flæddu um 100 til 200 rúmmetrar af kviku upp á hverri sekúndu við upphaf gossins.

Hæstu kvikustrókarnir náðu í upphafi í meira en hundrað metra hæð. Bjarmi af gosinu sást vel frá Reykjavík og einnig frá Akranesi og birtu margir myndir því til staðfestingar á Facebook. Þar fundu margir að því að ríkissjónvarpið rauf ekki beina útsendingu á umræðuþættinum Silfrinu til að flytja samtímafréttir af gosinu.

Lengd gossprungunnar var talin vera um 4 kílómetrar aðfaranótt 19. desember og var syðsti endi hennar í tæplega þriggja kílómetra fjarlægð frá Grindavík.

1459761Þetta kort birtist á mbl.is að morgni þriðjudagsins 19. desember. Gosið hófst 22.17 daginn áður. Blaðamenn og ljósmyndarar brugðust við af fagmennsku og eru myndir og frásagnir tengdar gosinu í blaðinu 19. desember.

Að kvöldi mánudagsins 18. desember fór fréttakona Kastljóss sjónvarpsins og ræddi við einstaklinga sem höfðu flust til heimila sinna í Grindavík og gist þar næturlangt í trássi við almannavarnabann. Þeir töldu að hætta verði gengin yfir og kenndu það við „gerræði“ að banna sér annað en tímabundna dvöl í bænum.

Var beðið nýs hættumats sem gefa átti út miðvikudaginn 20. desember og lá í loftinu að eftir það yrði slakað enn frekar á gagnvart dvöl íbúa Grindavíkur í bænum. Hvað gerist nú er óljóst.

Talið er líklegt að vegna umbrota síðustu vikna séu 80 hús ónýt í Grindavík. Mörg hús eru auk þess löskuð, þar á meðal grunnskólinn, leikskólinn, og íþróttahúsið. Bæjarstjórnin og starfsmenn bæjarins starfa í Reykjavík og bærinn getur ekki sinnt grunnþjónustu. Gefið hefur verið út að ekkert skólastarf verði í Grindavík á þessu skólaári. Það er ekki hægt að tryggja starfsemi slökkviliðs í bænum, liðsmenn þess eru búsettir víða fjarri Grindavík. Þetta á einnig við björgunarsveitarmenn, þeir hafa dreifst víða eftir rýmingu bæjarins 11. nóvember, Grindavíkurvegur er óökufær og því lokaður.

Að morgni þriðjudagsins 19. desember sagði Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, sem á orkuver í Svartsengi skammt frá gosstöðvunum: „Eins og staðan er virðist þetta vera eins heppilegt og það gat verið á þessum stað.“ Hann hefði mestar áhyggjur af Grindavíkurvegi.

Mælar sýna ekki breytingar á þrýstingi í borholum og vatnsgæði eru sömuleiðis í lagi. Rafmagnslínurnar eru ekki taldar í hættu.

Framvinda gossins er óljós. Mörgum er létt við að kvika streymi nú upp á yfirborðið og óvissa vegna frétta um ferðir hennar í iðrum jarðar sé úr sögunni. Undanfarið hefur verið unnið að gerð mikilla varnargarða umhverfis Svartsengi og Bláa lónið. Var stefnt að verklokum miðvikudaginn 20. desember.

Flugumferð raskaðist lítillega á Keflavíkurflugvelli vegna gossins. Flugumferðarstjórar ákváðu að falla frá fjórða áfanga verkfallsaðgerða sinna að morgni miðvikudagsins 20. desember.

Fannar Jónsson, bæjarstjóri í Grindavík, sagði á mbl.is að morgni 19. desember að hann hefði áhyggjur af tvennu, að hraun gæti runnið suður til Grindavíkur og að orkumannvirkjum í Svartsengi.