16.4.2018 14:24

Enn finnast dýrgripir tengdir Haraldi blátönn.

Haraldur blátönn er þekktur um allan tölvu- og fjarskiptaheiminn vegna þess að viðurnefni hans Bluetooth á ensku er notað þar.

Haraldur blátönn er þekktur um allan tölvu- og fjarskiptaheiminn vegna þess að viðurnefni hans Bluetooth á ensku er notað þar. Hann var konungur Danmerkur frá um 958 þar til hann andaðist árið 987. Á Jalangurssteininum stendur að hann hafi kristnað Dani.

Haraldur blátönn sameinaði dreifða danska ættbálka í eina heild og tengdi þá norskum nágrönnum sínum. Honum tókst þannig að skapa tengsl milli hópa sem áður vildu ekki eiga nein samskipti sín á milli. Þessi hæfileiki hans varð til þess að Ericsson fyrirtækið ákvað að kenna tæknistaðalinn sem það þróaði vegna þráðlausra tenginga við hann, Bluetooth, Blátönn. Litla einkennismerkið sem er á öllum tækjum sem búa yfir blátannartækni eru upphafstafir Haralds blátannar með rúnaletri, eru rúnastafirnir tveir festir saman.

Rúnastafirnir tveir mynda merkið fyrir þráðlausa tæknistaðalinn.

Í nóvember 2013 var skýrt frá merkum fornleifafundi nyrst á Jótlandi austanverðu með sjóðum sem raktir voru til Haraldar blátannar. Nú hefur verið skýrt frá öðrum sambærilegum fundi á stærstu eyju Þýskalands, Rügen, nú um helgina (14. og 15. apríl). Eyjan er undan norðaustur strönd Þýskalands á Eystrasalti, skammt frá þýska bænum Greiswald.

Í þýska blaðinu Die Welt segir að þarna hafi fundist hálskeðjur, armbönd, perlur, brjóstnælur, skartgripir og Þórshamar. Fornleifafræðingar fundu einnig 500 til 600 peninga og er talið að 100 kunni að hafa verið í eigu Haraldi blátönn.

Michael Schirren frá Landesamt für Kultur und Denkmalpflege í Mecklenburg-Vorpommern stjórnar greftinum. Hann sagði við Die Welt að þarna hefðu fundist fleiri Blátannar-myntir á suðurhluta Eystrasalts en áður og hefði það „gífurlega þýðingu“.

Með fornleifafræðingunum var 13 ára drengur sem í janúar sl. fann fyrsta hluta af sjóðnum með málmleitartæki. Hann hélt þá að hann hefði fundið verðlausan hlut úr áli.

Á árinu 2012 fann 16 ára piltur, Michael Stokbro Larsen, mynt á akri við Strandby, skammt fyrir norðan Fredrikshavn, nyrst á Jótlandi. Fundurinn varð til þess að fornleifafræðingar fóru á stúfana og við uppgröft fundu þeir 265 hluti úr silfri frá víkingatímanum – er þetta einn mesti fornleifafundur í sögu Danmerkur.