19.6.2021 12:09

Enid Blyton og fordómarnir

Enid Blyton naut mikilla vinsælda hér á landi eins og jafnaldrar mínir muna örugglega. Bækur Blyton hafa verið þýddar á yfir 90 tungumál.

Enid Mary Blyton (11. ágúst 1897 – 28. nóvember 1968) var breskur barnabókarithöfundur sem er bæði þekkt sem Enid Blyton og Mary Pollock. Hún var einn vinsælasti barnbókarithöfundur 20. aldar, segir á Wikipediu.

Þar segir segir einnig að bækur Enids Blyton séu þekktar um allan heim og hafi selst í yfir 600 milljónum eintaka. Hún sé fimmti mest þýddi rithöfundur í heimi og meira en 3544 þýðinga bóka hennar séu fáanlegar samkvæmt Index Translationum UNESCO (2007).

WA995589Enid Blyton,

Enid Blyton naut mikilla vinsælda hér á landi eins og jafnaldrar mínir muna örugglega. Bækur Blyton hafa verið þýddar á yfir 90 tungumál. Fyrsta bók hennar sem þýdd var á íslensku kom út árið 1945 nefndis Sveitin heillar og var úr flokknum um Leynifélagið sjö saman. „Það var þó ekki fyrr en útgáfa Ævintýrabókanna hófst 1950 sem Enid Blyton varð alþekkt meðal íslenskra barna og náðu bækurnar miklum vinsældum,“ segir á Wikipediu.

English Heritage, sjálfseignarstofnun til verndar enskum menningarminjum, glímir nú við vanda vegna minningarskjaldar við hús þar sem Enid Blyton var kennslukona á einkaheimili fyrir um einni öld. Á vefsíðu English Heritage segir að verk Blyton sæti gagnrýni fyrir „rasisma, útlendingahatur og skort á bókmenntalegu gildi“. Hún var sem sagt ekki aðeins fordómafull heldur skorti hana einnig hæfileika sem rithöfundur.

Fyrir okkur sem ólumst upp við lestur bóka Blyton ætti þetta að vera meira áhyggjuefni heldur en fyrir núlifandi kynslóðir sem þekkja ævintýrabækurnar kannski aðeins af afspurn. Tókst henni að valda okkur skaða og viðhorfi okkar til annarra kynþátta eða útlendinga fyrir utan að spilla tilfinningu okkar fyrir góðum bókmenntum? Er ekki meira virði að velta fyrir sér hvernig unnt sé að þurrka út þessi áhrif heldur en hvort taka eigi niður bláa skildi við hús á Englandi til minningar um þá sem þar bjuggu?

Enid Blyton er örugglega ekki fagnað í dag, 19. júní, þegar baráttu fyrir kvenréttindum er minnst Fyrir utan ágallana á verkum hennar sem að ofan er getið má enn vitna í Wikipediu þar sem segir:

„Hlutverkaskipting [í bókum hennar] er líka skýr, stelpurnar elda og þvo upp, strákarnir leggja sig í hættu - þótt á því séu undantekningar eins og Georg(ína) í Fimm-bókunum, sem klæðir sig og hagar sér eins og strákur og lætur kalla sig strákanafni. Flestar stelpurnar eru þó fullkomlega sáttar: „Anna horfði aðdáunaraugum á Jonna. En sá munur að vera strákur!““

Á að afskrifa rithöfunda vegna fordóma þeirra eða líta á arfleifð þeirra í heild? Í Bretlandi á Enid Blyton vissulega málsvara sem minna á að í um 600 bókum hennar sé að finna boðskap um bjartsýni og að hið góða sigri að lokum:

Bókin The Naughtiest Girl in the School – Óþekkasta stelpan í bekknum – lýsi því hvernig fordekruð, undirförul stelpa sigrist á brestum sínum. Í Fimm-bókunum og Leynifélaginu sjö saman sé hugrekki og sjálfsbjargarviðleitni ungmenna hafin til skýjanna. Í Malory Towers bókaflokknum séu sagðar margar sögur af leið ungra stúlkna til aukins kvenlegs þroska.

Sögunni eða áhrifum ritverka verður ekki breytt með því að fjarlægja skilti eða brjóta styttur. Með því er hins vegar unnið gegn sögulegri fjölbreytni og stuðlað að einfaldari heimsmynd.