16.10.2019 13:15

Enginn vafi um stöðu Íslands

Með aðild að NATO, varnarsamningi við Bandaríkin og aðild að evrópska svæðinu auk Norðurlandaráðs er engin spurning hvar Íslendingar hafa skipað sér. Einkennilegt ef smáríkjarannsóknir leiða til vafa um það.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag (16. október) er frétt sem hefst á þessum orðum

„Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir Íslendinga þurfa að endurmeta utanríkisstefnuna. Út frá smáríkjafræðum sé mikilvægt að Ísland hafi tryggan skjólsveitanda.

Vísar hann til stjórnmálalegs og efnahagslegs skjóls. Tilefnið er m.a. þrýstingur bandarískra stjórnvalda á að Íslendingar taki ekki þátt í Belti og braut, innviða- og fjárfestingaverkefni kínverskra stjórnvalda, og noti ekki búnað frá kínverska félaginu Huawei í 5G-kerfið.“

Fréttin og það sem Marc Lanteigne, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann í Tromsö, fjallaði um í fyrirlestri við Háskóla Íslands snýst um að Íslendingar hafi ekki mikinn tíma til stefnu til að velja hvort þeir fylgi Bandaríkjunum eða Kína að málum í efnahagslegu tilliti. Lanteigne tók dæmi af Nýja-Sjálandi sem færi orðið varlega í gagnrýni á Kína vegna viðskiptahagsmuna.

Að fræðimenn komist að þessum niðurstöðum núna á grundvelli rannsókna sinna er athyglisvert miðað við það sem á undan er gengið og afstöðu Bandaríkjastjórnar nú miðað við það sem áður var. Þegar bandaríska varnarliðið var kallað frá Íslandi árið 2006 var ekki minnst á Norður-Atlantshaf í áætlunum Bandaríkjahers eða NATO. Nú er ályktað um öryggismál á hafinu á ráðherrafundum NATO og Bandaríkjaher er meginafl í æfingum NATO.

Andri Snær Magnason rithöfundur rifjar upp í bók sinni Um tímann og vatnið að í júní 2009 drógu allir æðstu stjórnendur Íslands sig í hlé þegar andlegur leiðtogi Tíbeta, Dalai Lama, kom hingað til lands. Þeir vildu greinilega skjóta sér undan reiði Kínverja.

Fr_20180608_088331Kínverska rannsóknastöðin á Kárhóli í Þingeyjarsýslu, Mynd af ruv.is.

Þá hefur sú skoðun verið rökstudd að tilraunir Huangs Nubos, kínverska auðmannsins, sem vildi kaupa Grímsstaði á Fjöllum hafi verið social engineering, það er tilraun til félagslegra áhrifa. Henni lauk með því að Nubo reyndi að beita sveitarfélögum fyrir sig. Þau standa núna með Kínverjum að rekstri rannsóknaseturs. Kínverski sendiherrann á Íslandi sagði í grein í Morgunblaðinu laugardaginn 12. október:

„Árið 2012 skrifuðu löndin tvö undir viljayfirlýsingu milli ríkisstjórnar Alþýðulýðveldisins Kína og ríkisstjórnar Íslands um samvinnu á sviði málefna norðurslóða, og var þetta fyrsta viljayfirlýsing sem Kína undirritaði við norðurslóðaríki. Kína þakkar Íslandi fyrir stuðninginn þegar Kína öðlaðist sæti sem áheyrnarfulltrúi í Norðurskautsráðinu og styður Ísland heilshugar í núverandi formennsku Norðurskautsráðsins.

Í október 2018 hóf fyrsta kínversk-íslenska rannsóknamiðstöðin opinberlega starfsemi sína með fjármagni frá báðum löndum og hefur þjónað sem grunnur milli samskipta vísindamanna frá Íslandi og Kína, en einnig stuðlað að alþjóðlegum samskiptum milli vísindamanna.“

Með aðild að NATO, varnarsamningi við Bandaríkin og aðild að evrópska svæðinu auk Norðurlandaráðs er engin spurning hvar Íslendingar hafa skipað sér. Einkennilegt ef smáríkjarannsóknir leiða til vafa um það.