13.8.2022 10:46

Endurreisnin í Múlakoti

Það gefur mikið að sjá draum sem þennan rætast og í ljós kemur að minningar tengdar Múlakoti snerta ekki aðeins náttúrufegurðina þar og nálægðina við Markarfljót og Eyjafjallajökul.

Sjöundi aðalfundur Vinafélags gamla bæjarins í Múlakoti var haldinn í borðstofu gamla bæjarins í gær, 12. ágúst. Félagið var stofnað 21. febrúar 2015. Tilgangur þess er að styðja sjálfseignarstofnunina Gamli bærinn í Múlakoti til að endurbæta, varðveita og sjá um rekstur gamla bæjarins í Múlakoti á þann veg að sem mest starfsemi geti farið fram í húsinu og tengdum mannvirkjum til að standa undir rekstrarkostnaði. Þá skal stefnt að því að komið verði fyrir í húsinu myndum og munum sem tengjast sérstaklega sögu hússins og e.t.v. fleiru sem vel þykir fara innan húss og utan. Fjár til starfseminnar skal afla með félagsgjöldum og frjálsum framlögum félagsmanna ásamt styrkjum frá opinberum aðilum.

IMG_5353Aðalfundurinn var í fyrsta sinn í borðstofu gamla bæjarins í Múlakoti sem meðal annars má sjá á málverkum meistara. Hér rýna fundarmenn í reikninga vinafélagsins.

Á árunum sem liðin eru frá því að við komum saman á stofnfundinum í félagsheimilinu Goðalandi hér í Fljótshlíðinni á sínum tíma hefur margt og mikið áunnist við endurbætur á gamla húsakostinum í Múlakoti. Tekist hefur að bjarga elsta hluta húsanna. Allt hefur verið unnið undir forsjá Minjastofnunar enda um friðuð hús að ræða. Hér birtist mynd úr austasta herberginu og sýnir barnavagn og dúkku sem varðveist hefur frá dætrum Ólafs Túbals ásamt munum úr dúkkuhúsi.

IMG_5359Allt er í upprunalegum litum og gamlir munir komnir á sinn stað.

Þegar málning var skafin af veggjum herbergja þarna (alls 15 kíló) komu upprunalegir litir í ljós og var málað í þeim.

Þarna sér varmadæla til þess á hagkvæman hátt að réttur hiti haldist í herbergjunum. Þá var steypt holrými norðan við þennan hluta bæjarins sem nýr að snarbrattri hlíð. Á þann veg var hindrað að framhald yrði á að húsið skekktist undan þunga jarðefna eins og við blasti áður en ráðist var í framkvæmdir. Enn er mikið verk óunnið við aðra hluta gamla bæjarins. Verkinu miðar í samræmi við fjármagn hverju sinni því að ekki er stofnað til skulda.

Þá hefur ekki síður verið unnið stórvirki í garði Guðbjargar Þorleifsdóttur sem kom til sögunnar árið 1897. Þar hafa margir lagt hönd á plóginn undir forystu Sigríðar Hjartar í Múlakoti en hún og maður hennar Stefán Guðbergsson verkfræðingur lögðu grunn að öllu sem snýr að endurbótum og endurreisn á staðnum með því að setja á laggirnar sjálfseignarstofnunina Gamli bærinn í Múlakoti.

IMG_5357Úr Guðbjargargarði. Þarna sést í minnisvarðann sem sunnlenskar konur reistu Guðbjörgu Þorleifsdóttur til heiðurs.

Um allt þetta má fræðast á vefsíðunni mulakot.is. Sigríður Hjartar veitir leiðsögn um staðinn sé þess óskað. Þá hefur vinafélagið efnt til svonefndra Ljósakvölda í Guðbjargargarði fyrsta laugardag í september, í ár 3. september. Öll félagsgjöld og aðgangseyrir að ljósakvöldinu rennur til endurbótanna.

Það gefur mikið að sjá draum sem þennan rætast og í ljós kemur að minningar tengdar Múlakoti snerta ekki aðeins náttúrufegurðina þar og nálægðina við Markarfljót og Eyjafjallajökul heldur lifa þær sjálfstæðu lífi í huga fjölmargra, í málverkum og bókum. Á vefsíðunni mulakot.is hefur verið leitast við að ná utan þennan þátt í sögu staðarins og verður gert.

IMG_5356Svona lítur elsti hluti gamla bæjarins út núna – mikið verk er enn óunnið við aðra hluta bæjarins.