Endurnýjanlegir orkugjafar í fjötrum
Deilur innan lands um náttúruvernd gera að engu áform um frekari virkjun endurnýjanlegrar orku.
Albert Þór Jónsson, viðskiptafræðingur með MCF í fjármálum fyrirtækja og 30 ára starfsreynslu á fjármálamarkaði, segir í grein í Morgunblaðinu í morgun (5. nóvember):
„Umhverfisvernd, náttúruvernd og snjallar hugmyndir munu verða helstu þættir samkeppnishæfni á 21. öldinni. Ísland hefur nægt af hreinu vatni, endurnýjanlegri orku, hreinu lofti og náttúrauðlindum sem gera Ísland að einu ríkasta og verðmætasta landi heims horft til 50 ára. Íslenskir bændur eru samofnir þessu ríka landi. Íslenskur landbúnaður mun á næstu árum verða hátækniatvinnugrein og jarðvegur þess á Íslandi er einstakur. Mikilvægt er að sjá skóginn fyrir trjám þegar horft er til framtíðar.
Íslenska víðáttan, hreina vatnið, endurnýjanlega orkan, íslenskar laxveiðiár, jöklarnir, fossarnir, norðurljósin, íslenska kindakjötið, íslenska skyrið og ylræktin eru einstök á heimsvísu. Aukin áhersla á náttúruvernd og umhverfisvernd munu leiða til aukinnar eftirspurnar eftir hreinu vatni, endurnýjanlegri orku, lífrænum landbúnaðarafurðum og náttúruafurðum úr íslenskri náttúru sem eru án mengunar eða lyfja. Náttúruvernd og umhverfisvernd munu því auka verðmætasköpun til lengri tíma.“
Undir þessi orð skal tekið. Þau minna á nauðsyn þess að huga vel og skipulega að eignarhaldi og nýtingu á þessum auðlindum. Það hlýtur að vera meginhlutverk stjórnvalda að setja um það lög og reglur. Þá þarf einnig að tryggja markaðsaðgang og að fiskur, kjöt og orka njóti hans og frjáls flæðis.
Ágreiningur um aðild Íslands að Evrópusambandinu snýst ekki síst um hvað yrði um stjórn fiskveiða. ESB hefur mótað sameiginlega stefnu í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum. EES-ríkin standa utan við það samstarf. Til að tryggja frjálst flæði íslensks fisks í ESB-löndum var samið um reglur sem nú valda ágreiningi og snerta innflutning á hráu kjöti en vegna hans verður að setja varúðarreglur.
Þessi skýringamynd á endurnýjanlegri vatnsorkuvinnslu er af vefsíðu Vatnsiðnaðar.
Engin sameiginleg stefna er innan EES um nýtingu orkuauðlinda, farið er með afurð þeirra. orkuna, sem hverja aðra markaðsvöru.
Deilur innan lands um náttúruvernd gera að engu áform um frekari virkjun endurnýjanlegrar orku. Beitt er þrýstihópum til að hefta framgang þessara áforma. Lausnin átti að felast í svonefndu „rammasamkomulagi“ þar sem leggja skyldi hlutlægt mat á virkjunarkosti. Þegar á reynir snýst þetta samkomulag í andhverfu sína.
Megi hvorki virkja né leggja flutningslínur fyrir raforku er til lítils að tala um að Íslendingar leggi nýtt af mörkum til loftslagsverndar með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þeim mun síður er ástæða til neyðarkalla vegna hugsanlegs sæstrengs. Sumir telja hann nú helstu ógn ESB við fullveldi Íslands. Endurnýjanleg orkuvinnsla er í heimatilbúnum fjötrum og verður að öllu óbreyttu áfram. ESB hefur ekkert um þessa fjötra að segja.