Emmanuel Macron varar við þjóðernishyggju
Hér var í gær lýst athöfninni við Sigurbogann í París til minningar um að 100 eru liðin frá því að fyrri heimsstyrjöldinni lauk. Einnig var sagt frá því að Emmanuel Macron Frakklandsforseti notaði tilefnið til að viðra þá skoðun að þjóðernishyggja væri andstæða föðurlandsástar.
Emmanuel Macron flytur hátíðarræðu sína við Sigurbogann 11. nóvember 2018.
Með þessum orðum gaf Macron tóninn fyrir kosningabaráttuna til ESB-þingsins í vetur, kosið verður til þess í maí 2019. Frakklandsforseti leggur mikið undir vegna þessara kosninga og segir þær baráttu milli „framfarasinna“ og „þjóðernissinna“. Hann ætlar að leiða fyrri hópinn.
Í huga Macrons er föðurlandsást jákvæð, þjóðernishyggja sækir hins vegar afl sitt til óvildar eða jafnvel haturs í garð annarra landa og þjóða. Hann óttast að þjóðernishyggjan sæki nú í sig veðrið. Fyrir nokkrum vikum líkti hann ástandinu í Evrópu nú við það sem var í álfunni á fjórða áratugnum. Þjóðernishyggja vísar til uppgangs fasista og nazista á þessum árum að hans mati.
Angela Merkel Þýskalandskanslari er á útleið. Fyrir utan að hafa almennt setið of lengi sem kanslari situr hún uppi með rangar ákvarðanir sínar árið 2015 þegar hún opnaði Þýskaland fyrir straumi farand- og flóttafólks.
Emmanuel Macron skammar Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, og Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, fyrir að loka landamærum gagnvart farand- og flóttafólki. Vandi Frakklandsforseta er þó að hann nýtur lítils stuðnings heima fyrir vegna þess að hann tekur ekki á útlendingavandanum í Frakklandi.
Macron og skoðanabræður hans greina það sem þjóðernishyggju vari ríkisstjórnir eða stjórnmálamenn og flokkar við aukinni miðstýringu innan ESB eða evru-svæðisins. Þessi skilgreining veldur að sjálfsögðu ágreiningi, ekki síst þegar látið er að því liggja að þeir sem rísa gegn útþenslu Brusselvaldsins séu náskyldir fasistum og nazistum.
Sagt er að Macron sæki sem franskur miðjumaður fyrirmynd til Valerys Giscards d‘Estaings (94 ára), forseta Frakklands 1974 til 1981. Honum var á sínum tíma falið að semja drög að stjórnarskrá ESB en Frakkar og Hollendingar felldu hana í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2005. Þeim þótti um of vegið að sjálfsákvörðunarrétti sínum. Var það vegna þjóðerniskenndar? ESB-hugmyndir Macrons eru þess eðlis að þær eiga almennt undir högg að sækja þótt hann slái um sig sem andstæðingur þjóðernishyggju – eða kanni vegna þess?