20.9.2022 10:26

Elísabet 2. borin til grafar

Að lokum er efst í huga eftir að hafa fylgst með þessum einstæða sögulega viðburði hve mikil áhersla var lögð á að tengja allt sem gert var sem mest almennum þegnum drottningarinnar.

Jarðarför Elísabetar 2. Bretadrottningar mánudaginn 19. september var einstakur viðburður sem sameinaði í senn bresku þjóðina og hundruð milljóna manna um heim allan sem fylgdust með honum í sjónvarpi.

Trúrækni drottningar var mikil og sagt var að varla hefði liðið sá sunnudagur á 96 ára ævi hennar að hún færi ekki til messu. Minningarorð í kirkjunum í Westminster og Windsor staðfestu þetta. Athafnirnar voru einlægar og áhrifamiklar. Veldistákn drottningarinnar og kóróna voru fjarlægð af kistunni áður en hún seig niður í hvelfingu kirkju heilags Georgs í Windsor. Þar hvílir drottningin nú við hlið eiginmanns síns, foreldra og systur.

Tíu dagar liðu frá því að Elísabet 2. andaðist 8. september þar til hún varð jarðsett. Líkbíll flutti kistu hennar frá Balmoral kastala til Edinborgar þar sem hún lá á viðhafnarbörum í St. Giles dómkirkjunni Um 33.000 manns heiðruðu hana þar.

1366068Þriðjudaginn 13. september var flogið með kistuna frá Edinborg til London. Sagði í fréttum að aldrei hefðu fleiri fylgst með ferðum flugvélar á vefsíðunni Flightradar24 eða alls 4,79 milljón manna auk þess sem 250.000 manns hefðu fylgst með flugferðinni á YouTube eða alls um 5 milljónir manna.

Miðvikudaginn 14. september fylgdi konungsfjöldskyldan kistunni fótgangandi frá Buckingham höll til Westminster þinghússins þar sem hún lá á viðhafnarbörum í sögufrægum viðhafnarsal (e. Great Hall) hússins þar til hún var flutt í Westminster Abbey kirkjuna að morgni mánudags 19. september þar sem 2.200 biðu hennar og tóku þátt í athöfnina, þar á meðal þjóðhöfðingjar um 100 landa. Hafði aldrei eins fjölmennur skari þeirra komið saman við útför frá því að Nelson Mandela, forseti S-Afríku, var jarðsettur árið 2013.

Þetta var fyrsta ríkisútför (e. state funeral) í Bretlandi í nær 60 ár eða frá því að Sir Winston Churchill var jarðsettur árið 1965. Breskur þjóðhöfðingi hafði þar til í gær ekki verið kvaddur í Westminster Abbey síðan 1760.

Otop-picgettyimages-1243352583_custom-7b323cbebeca3059e105e1f239dee7cf1f9ce8af-s1100-c50Sjóliðarnir 142 draga fallbyssuvagninn með kistu drottningar.

Talið er að um 450.000 manns hafi að sögn The Daily Telegraph gengið fram hjá kistu drottningar í viðhafnarsal Westminster frá fimmtudegi 15. september til mánudagsmorguns (breski menningarráðherrann sagði síðar að þeir hefðu verið um 250.000). Hundruð þúsunda fylgdust með á götum London miðvikudaginn 14. september þegar kistan var flutt frá höllinni í þinghúsið en enn fleiri voru á götunum útfarardaginn þegar 142 sjóliðar drógu kistuna á fallbyssuvagni sem fyrst var notaður árið 1901 þegar formóðir Elísabetar, drottning Viktoría, var borinn til grafar. Snemma dags drógu sjóliðarinir vagninn frá viðhafnarsalnum í kirkjuna í Westminster en síðan frá kirkjunni í um það bil 45 mínútur að Wellington-sigurboganum skammt fyrir ofan Buckhingham höll. Fylgdi Karl 3. konungur, systkini hans og synir kistunni fótgangandi þessa leið.

Frá sigurboganum var kistan flutt í líkbíl að Windsor-kastala þar sem mikill mannfjöldi beið þegar bílnum var ekið síðasta spölinn að kastalaveggnum.

4LL61F2_000_32JQ2GD_jpgÞegar komið var að Windsor-kastala beið þar merin Emma sem var drottningu kær.

Þeim mikla fjölda hermanna og annarra sem voru í líkfylgdinni verður ekki með orðum lýst. Öll framkvæmd var á þann veg að fyllti áhorfandann stolti hvað þá þátttakendur og skipuleggjendur.

Að lokum er efst í huga eftir að hafa fylgst með þessum einstæða sögulega viðburði hve mikil áhersla var lögð á að tengja allt sem gert var sem mest almennum þegnum drottningarinnar. Skrautlegur umbúnaðurinn var allur í raun sniðinn að því að sem flestir fengju notið hans ­– hvergi var slegið af kröfum um hátíðleika og stundvísi en samt var allt í sama látlausa anda og einkenndi drottninguna og framkvæmd hennar á fyrirheitinu sem hún gaf þjóð sinni ung: að þjóna henni til æviloka.