11.3.2019 10:42

Ekki eitt heldur allt í Reykjavíkurborg

Hvað felst í þessu orðalagi? Að skólahúsnæðið hefur verið án eðlilegs viðhalds auk þess sem hreinlæti í skólanum er ábótavant.

Í dag (11. mars) er tilkynnt að loka verði Fossvogsskóla vegna mygluskemmda. Skólanum verður lokað eftir kennslu á miðvikudag „vegna raka- og loftgæðavandamála“, segir í tilkynningu. Það var fyrir harðfylgi Magneu Árnadóttur, sem á son í skólanum, að þessi ákvörðun var tekin. Hún dró í efa niðurstöðu á vegum verkfræðistofunnar Mannvits og knúði á um að loftgæði í Fossvogsskóla yrðu skoðuð betur. Í Morgunblaðinu í dag segir:

„Hún hafði sjálf veikst vegna myglu í húsnæði og þekkti einkennin og áhrifin. Magnea sá misræmi í niðurstöðum Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) og Mannvits varðandi sýnin úr skólanum. „Ég var mjög ósátt við niðurstöðu Mannvits og skýrslu þeirra. Ég vissi af leka í skólanum en Mannvit sagði að það væri ekki leki,“ sagði Magnea.“

1119020Tilkynning til nemenda Fossvogsskóla - mbl.is

Nú liggur fyrir minnisblað frá annarri verkfræðistofu, Verkís, sem segir að skipta megi vandamálum í Fossvogsskóla í fernt:

„Þau eru lélegt rakavarnarlag í þaki (að hluta) sem minnkar loftgæði í íverurýmum. Gömul loftræstikerfi að hluta. Bæta þarf úr reglubundnum þrifum og skemmdir vegna langvarandi leka. Fram kemur í nánari skýringum að lekar hafi fundist víða í byggingunum,“ segir í Morgunblaðinu.

Hvað felst í þessu orðalagi? Að skólahúsnæðið hefur verið án eðlilegs viðhalds auk þess sem hreinlæti í skólanum er ábótavant.

Á tæpu ári hafa birst svo margar vísbendingar um óstjórn í Reykjavíkurborg að allt tal meirihlutans undir forystu Dags B. Eggertssonar um eigið ágæti og grimmd minnihlutans í garð embættis- og starfsmanna borgarinnar er ekki annað en flótti frá eigin ábyrgð á öllum sviðum.

Þegar sveitarstjórnarráðuneytið úrskurðar að ekki sé einu sinni farið að lögum við boðun fundar í ráði borgarinnar kýs Dagur B. að gera lítið úr því með því að nefna innsláttarvillu á tölvu. Skyldi ráðuneytinu ekki hafa verið gerð grein fyrir þeirri marklausu afsökun?