1.4.2020 11:21

Ekki að óvörum

Þar eru meðal annars nefndar fimm hnattrænar hættur sem ættu að vekja okkur áhyggjur. Þær eru: heimsfaraldur, fjármálahrun, heimsstyrjöld, loftslagsbreytingar og sárafátækt.

Hans Rosling (1948-2017) var sænskur læknir, prófessor í alþjóðaheilsufræði við Karolinsku-stofnunina í Stokkhólmi. Þá var hann formaður í Gapminder Foundation sem þróaði Trendalyzer hugbúnaðinn. Á netinu má sjá hann flytja marga TED-fyrirlestra þar sem hann ræðir aðferðir við að rýna samtímann og framtíðina á grundvelli tölfræði. Að honum látnum kom út bók hans Factfulness sem hann skrifaði með Önnu Rosling Rönnlund og Ola Rosling. Bókin hefur víða ratað á metsölulista og á kápu hennar er vitnað til orða sem Bill Gates lét falla um hana: „Ein mikilvægasta bók sem ég hef lesið – ómetanleg til að geta hugsað skýrt um veröldina.“

Geraltyichen-2KheN10Uqdo-unsplashÍ bókinni er að finna mikinn fróðleik. Þar eru meðal annars nefndar fimm hnattrænar hættur sem ættu að vekja okkur áhyggjur. Þær eru: heimsfaraldur, fjármálahrun, heimsstyrjöld, loftslagsbreytingar og sárafátækt.

Heimsfaraldur er sem sagt efst á blaði. Vitnað er til þess að 50 milljónir manna létust vegna spænsku veikinnar, fleiri en féllu í fyrri heimsstyrjöldinni, en fjöldi látinna hafi vafalaust verið hærri en ella vegna þess hver margir áttu um sárt að binda og máttu sín lítils eftir að stríðinu lauk 1918.

Rosling segir að marktækir sérfræðingar í smitsjúkdómum séu sammála um að ný tegund af flensu ógni enn þann dag í dag mest heilbrigði jarðarbúa. Ástæðuna megi rekja til þess hvernig flensur berist. Þær fari um loftið í smádropum. Einstaklingur geti gengið inn í lestarvagn og smitað alla í honum án þess að snerta nokkurn eða nokkur snerti sama staðinn. Loftsmitandi flensa af þessu tagi sem dreifist af miklum hraða ógni mönnum meira en Ebóla eða HIV/AIDS. Vægt til orða tekið megi segja að mikilvægt sé verjast á allan hugsanlegan hátt smitveiru sem berist hratt frá einum manni til annars og láti ekkert hindra för sína.

Rosling telur að nú sé mannkyn betur undir það búið að takast á við faraldur af þessu tagi en áður en þó þurfi að huga sérstaklega að þeim sem búi í fjölmenni við mesta fátækt. Tryggja verði að allir njóti grunn heilbrigðisþjónustu svo að fljótt megi greina hættuna á faraldri. Þá þurfi að tryggja að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, sé heilbrigð og öflug til að samræma hnattræn viðbrögð. (Bls. 238.)

Þegar þetta er lesið í ljósi þess sem gerst hefur frá því að Covid-19 braust út í Wuhan í Kína í lok nóvember eða byrjun desember 2019 sést að við erum nú á því stigi að glímt er við veiruna áður en fréttir berast af því hvernig hún leggst á þann hluta mannkyns sem býr við mesta hættu að mati Roslings vegna fátæktar og þéttbýlis.

Kínversk yfirvöld geta ekki skotið sér undan ábyrgð á frumstigi faraldursins. WHO hefur ekki þann styrk sem Rosling vonaði. Hver þjóð tekst á við faraldurinn á eigin forsendum. Atvinnu- og efnahagslíf lamast vegna aðgerða til að hefta smitun af smádropunum.

Viðbrögð mannkyns við heimsfaraldri hafa aldrei verið eins víðtæk. Enginn veit enn hvernig átökunum lyktar eða hvenær og hvernig aflvélar samfélaganna verða aftur virkjaðar. Efinn veldur kvíða.