29.1.2021 9:32

Eintals-evru-flokkurinn

Í umræðum á alþingi um verðbólguskotið í ársbyrjun birtist vel evru-stoðin undir Viðreisn í ræðum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.

Af ræðum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, skrifum Benedikts Jóhannessonar, stofnanda og fyrrverandi formanns Viðreisnar, og hugleiðingum Þorsteins Pálssonar, hugmyndafræðings Viðreisnar, blasir við að upptaka evru er kjarninn í stefnu flokksins og það sem heldur honum saman sem jákvætt afl, neikvæði sameiningar- og tilvistarþáttur flokksins er andúð og tortryggni í garð Sjálfstæðisflokksins. Síðari þátturinn er eðlislægur í flokksbrotum og einstaklingar sigrast ekki á honum fyrr en þeir ganga að nýju til liðs við gamla móðurflokkinn eins og margsannað er hér og erlendis.

Í umræðum á alþingi fimmtudaginn 28. janúar birtist vel evru-stoðin undir Viðreisn í ræðum Þorgerðar Katrínar þegar hún ræddi við Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, í tilefni af því að Hagstofa Íslands birti tölur um 4,3 ­– 4,7% verðbólgu.

Https-_www.history.com_.image_MTU3ODc3NjU3MDE0MjQ4Nzc3_this-day-in-history-01041999-the-euro-debutsFormaður Viðreisnar sagði að í ferðaþjónustulöndum í Suður-Evrópu væri verðbólga við eða undir 0% verðbólgu. Íslenska krónan væri „því enn og aftur að valda verðbólgu hér heima við“. Seðlabanki Íslands hefði reynt að verja fall krónunnar en vegna þeirra tilrauna gæti seðlabankinn ekki „prentað peninga eins og allir seðlabankar eru að gera núna“. Það leiddi til lakari lánskjara fyrir ríkissjóð og skerti svigrúm íslenskra stjórnvalda til mótvægisaðgerða.

„Þetta verðbólguskot er enn ein áminningin um hve vitaónýt íslenska krónan er, hve djúpstæð vandamál hún skapar á endanum fyrir heimilin og fyrir fyrirtækin til skemmri en líka til lengri tíma,“ sagði formaður Viðreisnar og bætti við: „Er það einfaldlega þannig að það megi ekki ræða krónuna, sjálfan fílinn í herberginu?“

Spurningin um fílinn snýr frekar að Viðreisn en öðrum. Hún gefur til kynna að þar á bæ finnist einhverjum nóg um hve evrunni er mikið hampað. Varla getur Þorgerður Katrín talið að þeir sem taka málstað krónunnar sé þvert um geð að ræða ágæti hennar? Prentun peninga án innstæðu er jafnan nefnd sem váboði þegar verðbólga er rædd en það lögmál á greinilega ekki við núna þegar evrum er dælt út úr prentvélunum.

Bjarni Benediktsson sagði að lokinni ræðu formanns Viðreisnar að skilja mætti orð hennar á þann veg að það væri „eftirsóknarvert að vera í hagkerfi þar sem verðbólgan er 0,5%“. Hann liti á hinn bóginn á það sem merki um sjúkleika þegar seðlabanki evrunnar lofaði að „kaupa 70% af öllum ríkisútgefnum pappírum á næstunni — 70%.“ Það bæri ekki sér væntingar um hagvöxt en slíkar væntingar værui hér á landi.

Hann taldi það ranga niðurstöðu hjá Þorgerði Katrínu að kenna íslensku krónunni um verðbólguskotið hér. Að baki því lægju mælanlegar stærðir: Launahækkanir kynnu að hafa „smitast út í verðbólgu“ í hærri álagningu í þjónustu og vöru. „Horft fram á við gerir allur markaðurinn á Íslandi ráð fyrir því að Seðlabankanum gangi vel að ná tökum á verðbólgustiginu og að verðbólga fari lækkandi á komandi misserum,“ sagði fjármála- og efnahagsráðherrann.

Þessu svaraði Þorgerður Katrín með spurningu: „Er ekki tími til kominn, líka fyrir aðila vinnumarkaðarins í samvinnu við stjórnvöld, að fara að ræða gjaldmiðilinn okkar, eins og ég gat um áðan, fílinn í herberginu? Getur verið að launaþróunin sé með þessum hætti hér heima af því að við erum með þennan gjaldmiðil?“

Þarna sannaðist enn að Viðreisn er eins-máls-flokkur, eintals-evru-flokkur.