30.10.2021 10:18

Einstakt menningarlegt framtak

Vonandi fær þessi saga farsælan enda svo að minningin um Sigurjón Ólafsson og ótrúlega þrautseigju, Birgittu, ekkju hans, og fjölskyldu í baráttu fyrir safninu í Laugarnesi lifi.

Safn Sigurjóns Ólafssonar (1908-1982) myndhöggvara er einstætt og á einstökum stað í Laugarnesi. Eftir að Sigurjón andaðist stofnaði Birgitta Spur, ekkja hans, einkasafnið LSÓ 1984 með aðsetur í vinnustofu hans og heimili þeirra hjóna á Laugarnesi. Húsnæðið var endurgert og var safnið opnað almenningi árið 1988 og gert að sjálfseignarstofnun 1989.

Margir hafa lagt leið sína í safnið undanfarna áratugi. Þar hefur ekki aðeins mátt sjá listaverk Sigurjóns heldur er salurinn vinsæll fyrir tónleika og annars konar mannfagnaði sem falla að húsakynnunum. Þar er notaleg kaffistofa með útsýni vestur yfir hafflötinn að gömlu höfninni í Reykjavík, einstakt sjónarhorn.

1175565Birgitta Spur við eitt verka Sigurjóns í Laugarnesi (mynd:mbl/RAX).

Eins og margar aðrar menningarstofnanir var safnið rekið með styrkjum frá Reykjavíkurborg og ríkinu auk sjálfsaflatekna. Í Fréttablaðinu í dag (30. október) segir Birgitta að hrunið 2008 hafi leikið safnið grátt. Niðurskurður á fjárframlögum ríkis og borgar leiddi af sér að það vantaði 8 milljónir króna til að brúa bilið milli tekna og árlegra rekstrargjalda. Sjálfseignarstofnunin var lögð niður og menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, veitti í júní 2012 viðtöku skuldlausri eign, safni í fullum blóma.

Birgitta segir að með gjafabréfinu hafi fylgt samkomulag milli Listasafns Íslands og stjórnar sjálfseignarstofnunarinnar um að safnið yrði rekið „í anda þeirrar starfsemi sem þar hefur verið rekin“ með rannsóknarvinnu, tónleikahaldi og fjölbreyttri menningarstarfsemi.

Tilefni fréttarinnar nú er að Birgitta Spur segist sjá eftir þessum gjafagerningi þar sem ríkið hafi ekki staðið við sinn hluta hans. Í fréttinni eru hvorki birt sjónarmið Listasafns Íslands né menntamálaráðuneytisins.

Í fréttinni kemur fram að strax árið 2016 hafi menntamálaráðuneytið litið þannig á að ekkert listasafn Sigurjóns Ólafssonar væri til eftir að það var gefið ríkinu. Er þar vísað í skýrslu ríkisendurskoðunar frá mars 2016 þar sem segir að 71% af fjárveitingu sem hafi verið eyrnarmekt LSÓ á árunum 2012-2015 eða 104 m. kr. hafi runnið til rekstrar Listasafns Íslands.

Birgitta segir að fyrir þremur árum hafi Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra tekið vel í ósk hennar um að safnið yrði rekið sem sjálfstæð eining með eigin stjórn og eigið fjármagn, í líkingu við Listasafn Einars Jónssonar og Gljúfrastein.

Embættismenn menntamálaráðuneytisins hafi ekki fallist á þetta en boðið að safnið yrði útvistað til Birgittu og fjölskyldu hennar til fimm ára. Nú eftir sextán mánuði hefur Birgitta þær fréttir „að það styttist í að gengið verði frá samningnum og að árlegt fjárframlag verði 19,5 milljónir króna sem ekki verði hækkað á samningstímabilinu, en sú upphæð samsvarar rekstrargjöldum safnsins árið 2011",

Vonandi fær þessi saga farsælan enda svo að minningin um Sigurjón Ólafsson og ótrúlega þrautseigju, Birgittu, ekkju hans, og fjölskyldu í baráttu fyrir safninu í Laugarnesi lifi sem hluti menningarlegrar fjölbreytni.

Hvarvetna um land allt sjá bæjarfélög og sveitir sér það til virðingarauka að leggja metnaðarfulla rækt við listamenn sem þeim tengjast. Í Morgunblaðinu í dag birtist til dæmis auglýsing undir fyrirsögninni: Afrekshuga heim! og vísar hún til framtaks einstaklinga og sveitarfélagsins Rangárþingsw eystra sem miðar að því af afsteypa af styttunni Afrekshugur eftir Nínu Sæmundsson rísi á Hvolsvelli. Í auglýsingunni segir:

„Við viljum því hvetja einstaklinga og fyrirtæki um land allt að styrkja þetta verðuga verkefni og senda nafn og kennitölu á netfangið afrekshugur@gmail.com. Greiðslubeiðni að upphæð kr. 5.000 verður þá send í heimabanka viðkomandi. Einnig er hægt að tilgreina hærri upphæð í sama pósti.“

Nína var fædd í í Nikulásarhúsum í Fljótshlíð árið 1892 og hefur henni þegar verið reistur minningarlundur þar, Nínulundur. Núi skal gert betur til að halda minningu hennar á loft með þessu góða framtaki. Einstaklingar hafa haft frumkvæði að öllu sem varðar minningu Nínu í Fljótshlíðinni og á Hvolsvelli en ekkert hefði orðið að framkvæmdum án stuðnings sveitarfélagsins og ríkisins. Þetta er eðlilegt samstarf öllum til virðingar og menningarauka.