1.8.2019 10:19

Einstæð staða þjóðarbúsins

Á sama tíma og niðurrif er stundað af andstæðingum þriðja orkupakkans berast ánægjulegar fréttir um efnahag þjóðarinnar.

Á mælikvarða sem almennt eru notaðir til að leggja mat á árangur á stjórnmálavettvangi einkennist það af einhvers konar sjálfseyðingarhvöt að innan Sjálfstæðisflokksins skuli menn hamast við það daginn út og daginn inn að tala flokkinn niður vegna ágreinings innan hans um þriðja orkupakkans. Af þeim umræðum öllum mætti halda að aldrei fyrr hefði verið deilt um málefni á vettvangi flokksins.

Þegar tekist var á um aðildina að EES á árinu 1992, meðal annars innan Sjálfstæðisflokksins, deildu lögspekingar eins og núna um hvort í aðildinni fælist afsláttur á fullveldinu eða brot á því. Deilum lögfræðinganna lauk ekki með aðildinni og þær standa enn eins og sjá má.

Nú er jafnframt tekist á um sviðsmynd sem dregin er upp af hættum sem steðja að þjóðinni vegna þess að einhverjum kunni að detta í hug að leggja sæstreng til Íslands og gera háa skaðabótakröfu fái hann ekki að tengja hann. Þegar bent er á með skýrum rökum að sviðsmyndin standist ekki er lagst í lögskýringar til að sanna að víst geri hún það og allri hugarsmíðinni er hampað sem einhverjum veruleika í ritstjórnardálkum Morgunblaðsins.

Að sumrinu skuli varið í þessar deilur má rekja til þess að látið var undan málþófi þingmanna Miðflokksins undir lok júní til að þeir hefðu sumarið til að afla frekari gagna eftir að þeir ræddu málið sín á milli í ræðustól alþingis daga og nætur. Sumarhlé þingmanna Miðflokksins virðist að vísu hafa farið í annað ef marka má frásagnir af greinargerðum sem þeir hafa setið við að semja til að berja í eigin siðferðisbresti.

Brenglunin í umræðum um þriðja orkupakkann birtist meðal annars í þeirri skoðun að hér eða innan Sjálfstæðisflokksins sé sambærilegt ástand og í Bretlandi eða í breska Íhaldsflokknum vegna brexit. Tal í þá veru stenst ekki gagnrýni.

Meirihluti breskra kjósenda fól þingi og ríkisstjórn að segja skilið við ESB. Á þremur árum hefur það ekki tekist. Þingmenn Íhaldsflokksins neyddu Theresu May til afsagnar og Boris Johnson tók við af henni. Hann ætlar aðra leið úr ESB en May. Hvort honum tekst það kemur í ljós. Þessar bresku hamfarir eiga ekkert skylt við innleiðingu hér á ósköp venjulegu ákvæði vegna EES-aðildarinnar. Þær má hins vegar misnota til að ala á óeiningu innan Sjálfstæðisflokksins. Svo þegar það hefur tekist þykjast óeiningarmennirnir undrandi á að fylgi flokksins dali í skoðanakönnunum – eða gleðjast þeir?

Linuile.phpÞessi mynd sem sýnir stóra drætti í þróun efnahagsmála þjóðarinnar birtist í Morgunblaðinu 1. ágúst 2019. Af henni sést hve mikill árangur hefur náðst við stjórn efnahagsmála. Þetta er sá árangur sem jafnan hefur vegið þyngst við mat á þeim sem stýra þjóðarskútunni.

Á sama tíma og niðurrif er stundað af andstæðingum þriðja orkupakkans berast ánægjulegar fréttir um efnahag þjóðarinnar. Staða þjóðarbúsins er hefðbundin mælikvarði um hvort ríkisstjórn eðs stjórnmálamenn ráði við verkefni sitt.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir í Morgunblaðinu í morgun (1. ágúst):

„Seðlabankinn situr á gríðarlegum gjaldeyrisvaraforða og hrein skuldastaða þjóðarbúsins er jákvæð. Á sama tíma hafa heimili, fyrirtæki og ríkið nýtt uppsveiflu til að greiða niður skuldir. Þetta höfum við aldrei upplifað áður. Nú erum við í fyrsta skipti í hagsögunni ekki að ganga í gegnum niðursveiflu með veikingu krónunnar heldur er krónan að styrkjast þrátt fyrir að það sé slaki í efnahagslífinu og samdráttur mælist í ferðaþjónustunni. Sú staða sem nú er uppi ætti að leiða til lægra vaxtastigs til frambúðar. Aukinn stöðugleiki dregur auk þess úr óvissu, sem ætti til langs tíma að leiða til aukinnar fjárfestingar, innlendra og erlendra aðila, sem hefur jákvæð áhrif á framleiðni og þar með verðmætasköpun á Íslandi.“

Katrín Jakobsdóttir er forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson efnahags- og fjármálaráðherra þegar þessi dómur um stöðu þjóðarbúsins er felldur. Hann er í betra samræmi við yl og birtu sumarsins en svartnætti og bölbænir þeirra sem vega stöðugt að Sjálfstæðisflokknum og landstjórninni.