13.2.2019 10:06

Einstæð hringferð þingflokks sjálfstæðismanna

Þetta er í fyrsta sinn í 90 ára sögu Sjálfstæðisflokksins sem allur þingflokkur hans leggur saman land undir fót í hringferð um landið.

Á FB-síðu Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins,  má fylgjast með einstakri hringferð þingflokks sjálfstæðismanna um landið sem hófst að morgni sunnudags 10. febrúar en í gærkvöldi (12. febrúar) voru þingmennirnir á Eskifirði.

Oft hafa margir fundir verið skipulagðir á vegum sjálfstæðismanna samtímis um land allt en þetta er í fyrsta sinn í 90 ára sögu Sjálfstæðisflokksins sem allur þingflokkur hans leggur saman land undir fót í hringferð um landið. Lokafundurinn í dag (13. febrúar) verður klukkan 21.00 á Kirkjubæjarklaustri en dagskrá ferðarinnar er kynnt á vefsíðu flokks xd.is.

Hringferðinni lýkur kl. 12.00 laugardaginn 16. febrúar í Iðnó. Síðan verður þingflokkurinn með fundi undir kjörorðinu Á réttri leið á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi fyrir vestan Vík í Mýrdal, Suðurnesjum, Vesturlandi, Snæfellsnesi og Vestfjörðum. Boðað er að síðasti fundurinn verði í Vestmannaeyjum 6. apríl.

Ystasel_allirÞingflokkur sjálfstæðismanna með Sverri Ingólfssyni í samgönguminjasafninu á Ystafelli í Köldukinn í Þingeyjarsveit.

Þetta er vel skipulögð útrás þingflokksins og hennar á áreiðanlega eftir að sjá stað í störfum hans. Óli Björn Kárason segir í grein í Morgunblaðinu í dag:

„Hringferð þingmanna Sjálfstæðisflokksins treystir ekki aðeins tengslin við almenning heldur eykur skilning á þeim tækifærum sem eru um allt land ef rétt er staðið að verki. Um leið skynjum við sem skipum þingflokkinn okkur betur á þeim áskorunum sem einstök byggðarlög standa frammi fyrir. Óhætt er að halda því fram að frá fjörlegum fundum og hreinskiptnum samræðum, getum við bætt verkefnalista okkar verulega. Sum verkefnin eru einföld og auðvelt að leysa. Önnur verkefni eru flóknari og krefjast undirbúnings og nýrrar hugsunar.“