8.7.2018 9:55

Einokun þá og nú

Áður fyrr nutu kaupmenn aðstoðar einokunarvaldsins til að þvinga menn til viðskipta við sig. Nú er tækninni beitt í sama skyni.

Sumarið 1699 hlaut Hólmfastur Guðmundsson, bláfátækur bóndi á Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd þungan dóm fyrir að selja kaupmanninum í Keflavík þrjár löngur, tíu ýsur og tvö sundmagabönd. Einokunarvaldið krafðist þess að Hólmfastur seldi fisk sinn til kaupmannsins í Hafnarfirði en hann vildi ekki kaupa. Mátti Hólmfastur þola þunga refsingu fyrir athæfi sitt.

Á dögunum gekk úrskurður Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) um að Síminn hefði brotið fjölmiðlalög með því að beina viðskiptum Sjónvarps Símans að dótturfélagi sínu Mílu. Stofnunin sektaði Símann um níu milljónir króna vegna brotsins.

1408636335_bigstock__d_rendering_of_an_optic_fiber_17088053

Forsaga málsins er sú að Síminn stöðvaði dreifingu á ólínulegu efni Sjónvarps Símans yfir kerfi Vodafone 1. október árið 2015. Í ákvörðun PFS er rakið að þeir sem vildu kaupa aðgang að ólínulegu sjónvarpsefni Símans, svonefndu Sjónvarpi Símans Premium, hafi því síðan þurft að vera með myndlykil frá Símanum. Áskrift að efninu varð þar með eingöngu í boði í gegnum dreifikerfi Símans og nær eingöngu á neti Mílu.

Efni Símans er miðlað um ljósleiðara sem lagður er af Mílu en Vonafone notar ljósleiðara sem lagður er af Gagnaveitu Reykjavíkur, fyrirtæki í eigu Orkuveitu Reykjavíkur.

Margir hafa fengið ljósleiðara frá Gagnaveitunni í hús sitt en nýta hann ekki vegna deilna milli fjarskiptarisanna. Eftir að úrskurður PFS féll hefði mátt ætla að losnaði um einokunarhöftin á þessu sviði. Ég spurði Vodafone hvort nú væri unnt að tengjast ljósleiðara Gagnaveitunnar og nota samt myndlykil Símans við móttöku sjónvarpsefnis. Svarið var að það væri ekki hægt vegna samkeppniságreinings milli Gagnaveitunnar og Símans/Mílu. Þá leyfir Síminn ekki viðskiptavinum sínum að vera með myndlykil frá Vodafone á þeirra kerfum.

Áður fyrr nutu kaupmenn aðstoðar einokunarvaldsins til að þvinga menn til viðskipta við sig. Nú er tækninni beitt í sama skyni. Að lög og stofnanir sem eiga að gæta hags almennings gagnvart samkeppnishindrunum skuli líða þetta sýnir að hugsunarhátturinn frá 1699 er ekki eins fjarlægur og árin segja