21.8.2020 10:10

Einkamál eða opinbert?

Frétt um að fólk vilji ekki skýra blaðamanni frá einkamálum sínum er birt til að gera viðkomandi einstaklingi óleik, oft að tilefnislausu eins og í ofangreindu tilviki.

Ingi Freyr Vilhjálmsson, rannsóknarblaðamaður vefsíðunnar Stundarinnar, segir á síðunni föstudaginn 21. ágúst:

Forstöðumaður í Seðlabankanum vill ekki svara hvort hann starfaði fyrir ráðgjafa Samherja

Fyrrverandi forstöðumaður rannsóknardeildar gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands vill ekki svara því hvort hann fór síðar að vinna fyrir ráðgjafa útgerðarinnar. Hann var viðmælandi um rannsókn Seðlabankans á Samherja í kostuðum þætti á Hringbraut.“

Tekið skal fram að umræddan þátt á Hringbraut hef ég ekki séð og án áskriftar að Stundinni get ég ekki lesið þessa frásögn Inga Freys til enda. Á hana er ekki heldur minnst hér vegna efnisins. Ingi Freyr hefur birt svo mikið af alls konar frásögnum sem eru lítið annað en kenningar hans sjálfs svo að ekki er ástæða til að róa á þau mið.

Það er aðferðin sem Ingi Freyr notar sem vakti athygli. Feitletraða fyrirsögnin hér að ofan gefur til kynna að einhver forstöðumaður í seðlabankanum hafi starfað fyrir einhverja sem veittu Samherja ráð. Í ljós kemur að um er að ræða mann sem lét árið 2013 af störfum við seðlabankann og hóf einkarekstur. Nú leggur Ingi Freyr fyrir hann spurningu um einkahagi hans sem maðurinn neitar að svara og það verður tilefni þess að honum er stillt upp með þessum hætti á vefsíðunni. Þá er gefið til kynna að hann sé ótrúverðugar vegna þess að við hann hafi verið rætt í „kostuðum“ þætti, það er aðrir hafi greitt fyrir gerð þáttarins en eigendur Hringbrautar.

Reclaiming-financial-privacy-with-digital-currenciesFrétt um að fólk vilji ekki skýra blaðamanni frá einkamálum sínum er birt til að gera viðkomandi einstaklingi óleik, oft að tilefnislausu eins og í ofangreindu tilviki.

Eftir að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra hafði skýrt nákvæmlega frá ferðum sínum laugardaginn 15. ágúst vegna rangra ásakana um brot á veirureglum heimtaði fréttastofa ríkisútvarpsins að hún staðfesti með framlagningu reikninga að hún hefði sjálf greitt fyrir veitingar og annað! Þegar ráðherrann neitaði gerði fréttastofan frétt um það.

Ráðherrann skaut máli til sérfræðinga forsætisráðuneytisins í siðareglum ríkisstjórnarinnar sem taldi Þórdísi Kolbrúnu hafa staðið rétt að málum. Samt héldu fréttamenn áfram að japla á að þeir hefðu ekki fengið að sjá reikningana!

Lögmaður Samherja bað fréttastofu ríkisútvarpsins formlega að afhenda skjalið sem lagt var til grundvallar af fréttamanni 27. mars 2012 þegar lýst var grunsemdum vegna sölu Samherja á afurðum til dótturfélags erlendis. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri neitaði að afhenda skjalið með vísan til þess að það hefði verið afhent Seðlabanka Íslands í febrúar 2012. Benti útvarpsstjóri lögmanninum að leita eftir skjalinu í seðlabankanum eða Verðlagsstofu skiptaverðs.

Hvernig hefðu fréttamenn ríkisútvarpsins brugðist við slíku svari frá forstöðumanni opinberrar stofnunar vegna vandræðamáls starfsmanns stofnunarinnar? Hann vissi ekki hvort hann var með excel-skjal eða skýrslu.