Einkabíllinn veldur Hjálmari vonbrigðum
Orðin „það er hægt að stýra þessu“ segja allt sem segja þarf. Náttúrulögmál leiðir ekki til lengri bílaraða heldur markviss stefna Dags B. og Hjálmars.
Fréttir hafa verið um að hljóðbækur séu vinsælli hér en rafbækur. Kippur hleypur í sölu hljóðbóka þegar haustumferðin hefst á höfuðorgarsvæðinu. Mörgum bílstjórum finnst þægilegra að hafa góða sögu í eyrununum í biðinni í bílaröðunum en síbylju útvarpsstöðvanna þar sem keppst er við að segja frá einhverju sem litlu skiptir.
Undir forystu Samfylkingarinnar, Dags B.
Eggertssonar og Hjálmars Sveinssonar, var því hafnað að nota milljarð króna frá
ríkinu til að gera umferðarmannvirki. Þess í stað var ákveðið að styrkja strætó.
Fimmtudaginn 5. september birtist þessi frétt í Fréttablaðinu:
„Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir vonbrigði að hlutfall einkabílsins hafi hækkað. Samkvæmt nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins hefur hlutfall íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem ferðast með einkabíl hækkað úr 75 árið 2014 í 79 prósent árið 2018.
Samgöngumálin voru aðalmálið í síðustu sveitarstjórnarkosningum og þá sér í lagi borgarlínan. Þá hefur átakið Hjólað í vinnuna verið í gangi síðan 2008. Hjálmar segir að átakið og uppbygging hjólastíga hafi skilað sér, í dag velji um sjö prósent reiðhjól sem ferðamáta. „Þó að það komi ekki fram í þessum hlutfallstölum þá hefur verið mikil aukning í strætisvagnaferðum,“ segir Hjálmar og telur að skýringin geti falist í fækkun gangandi vegfarenda.
„Undanfarin ár hafa verið miklir efnahagslegir uppgangstímar, það er segin saga að fleiri kaupa sér bíl eða bæta við sig bíl,“ segir Hjálmar. „Þetta er sveiflukennt en það er hægt að stýra þessu.“
Markmið borgarstjórnar er að ná hlutfalli einkabílsins niður í 58 prósent árið 2030 líkt og hlutfallið er í Þrándheimi. Hjálmar segir að ellefu ár eigi að duga til þess, þá verði fyrstu leggir borgarlínunnar komnir í gagnið.“
Þessi frétt bendir til þess að enn eigi sala hljóðbóka eftir að aukast vegna mikilla tafa við gatnamót á höfuðborgarsvæðinu. Orðin „það er hægt að stýra þessu“ segja allt sem segja þarf. Náttúrulögmál leiðir ekki til lengri bílaraða heldur markviss stefna Dags B. og Hjálmars.
Í ofangreindri frétt er ekki að finna neina skýringu á hvers vegna hlutfall einkabílsins skuli verða sama í Reykjavík og Þrándheimi árið 2030. Eitt helsta deilumál í sveitarstjórnarkosningabaráttu í Noregi núna eru auknar álögur til að draga úr bílaumferð í borgum og bæjum. Samfylkingin er kannski að búa til nýjan skattstofn með því að lengja bílaraðirnar?
Um langt árabil hefur hlutfall ferða með strætó verið um 4%. Orð Hjálmars hér að ofan um fjölgun strætisvagnaferða eru um eitthvað annað en fjölda þeirra sem nota vagnana. Nú er látið eins og borgarlína eigi eftir að gjörbylta þessu hlutfalli þótt enginn viti í raun hvað í orðinu felst annað en að það kostar tugi milljarði króna að hrinda því í framkvæmd.
Um leið og menn hlusta á hljóðbækur á leið í og úr vinnu ættu þeir að leiða hugann að því hverjum stundin er að þakka. Hún er til komin vegna þess að „það er hægt að stýra þessu“ að hætti Samfylkingarinnar.