Einhuga stuðningur við Úkraínu
Í ræðu sinni sagði Bjarni Jónsson að hvar sem alþingismenn hefðu setið fundi erlendis hefðu þeir af festu haldið fram málstað Úkraínu, væri það sannarlega metið.
Alþingi samþykkti samhljóða mánudaginn 29. apríl þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024–2028. Utanríkismálanefnd þingsins undir formennsku Diljár Mistar Einarsdóttur, Sjálfstæðisflokki, var einhuga um afgreiðslu málsins og að ekki væri nauðsynlegt að óska umsagnar um tillöguna.
María Mesentseva, formaður þingmannanefndar Úkraínu á Evrópuráðsþinginu og Alicia Kearns, formaður utanríkismálanefndar breska þingsins ásamt Bjarna Jónssyni á þingpöllunum í úkraínska þinginu í febrúar 2023. Ljósmynd/Facebook/Bjarni Jónsson
Bjarni Jónsson, VG, varaformaður utanríkismálanefndar, var framsögumaður nefndarinnar og mátti ráða af ræðu hans að hann hefur lagt sig mjög fram um að kynna sér stöðu mála í Úkraínu eftir innrás Rússa.
Í ræðu sinni sagði hann að hvar sem alþingismenn hefðu setið fundi erlendis hefðu þeir af festu haldið fram málstað Úkraínu, væri það sannarlega metið. Frá því að innrásin var gerð hefði hann farið tvisvar til Úkraínu, síðast í ágúst 2023 og þá m. a. hitt ríkissaksóknara Úkraínu, Andriy Kostin. Hann hefði verið með „algjörlega“ á hreinu hvað Íslendingar hefðu gert t. d. að stofna til tjónaskrár vegna hernaðar Rússa og álykta um hungursneyðina í Úkraínu, Holodomor, á alþingi. Hefði ríkissaksóknarinn hvatt aðra til að taka Ísland sér til fyrirmyndar í þeim efnum.
Fyrr á árinu ákvað ríkisstjórn Íslands að leggja fé í sjóð sem Tékkar hafa notað meðal annars til að kaupa vopn fyrir Úkraínu. Síðan hefur verið stofnað til slíks sjóðs innan ramma NATO og í samþykkt alþingis nú felst heimild til aðildar að þeim sjóði. Þá er í greinargerð tillögunnar sem samþykkt var getið um alþjóðlegan sjóð til stuðnings Úkraínu sem Bretar leiða. Hann sinni útboðum og innkaupum á hergögnum í samræmi við óskir Úkraínu.
Athugasemdir Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, Pírata, þess efnis að utanríkismálanefnd hefði ekki sent tillöguna til umsagnar mátti skilja á þann veg að þar með hefði aðilum utan þings ekki gefist færi á að viðra sjónarmið sín vegna íslenskra fjármuna til vopnakaupa.
Augljóst er af umræðunum á þingi að umsagnir hefðu engu breytt um efni tillögunnar sem var samþykkt. Diljá Mist sagði meðal annars í umræðum um tillöguna: „Ef við bregðumst ekki við ákalli Úkraínumanna um að senda þeim aðstoð eða aðstoða aðra þjóð við að kaupa skotfæri og loftvarnir, sem Úkraínumenn hafa lagt höfuðáherslu á, þá verða engir eftir til að senda lopasokka.“
Jakob Frímann Magnússon, Flokki fólksins, velti upp sjónarmiðum annarra um hvort kenna mætti NATO um að Rússar réðust inn í Úkraínu. Þórhildur Sunna svaraði og sagði:
„Ég verð að segja að þetta er sambærileg röksemdafærsla og að saka konur um að hafa kallað eftir því að verða fyrir kynferðisofbeldi vegna fatanna sem þær klæddust. Þetta er nákvæmlega sama vegna þess að burt séð frá því hvað Rússlandi finnst þá geta þeir ekki beitt fyrir sig þjóðaréttinum. ... Þeir geta ekki réttlætt þetta þannig, það bara virkar ekki þannig og þetta er eins og að segja að kona hafi verið í of stuttu pilsi og hún geti því bara sjálfri sér um kennt að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi.“