25.3.2022 10:01

Eindrægni í NATO

Biden hafði því rétt fyrir sér þegar hann sagði í gær að ár og dagur væri síðan NATO-ríkin hefðu staðið svo þétt saman.

Í tilefni toppfundar NATO í Brussel fimmtudaginn 24. mars var enn einu sinni rifjað upp að Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefði sagt fyrir nokkrum misserum að bandalagið væri „heiladautt“. Nú á Macron að hafa rifjað upp þessi orð sín og sagt að þau væru úrelt enda hefði NATO nú fengið „raflost“ og gengið í endurnýjun lífdagana.

Macron sagði einnig í tengslum við NATO-fundinn:

„NATO hefur ákveðið að styðja Úkraínu í þessu stríði án þess að fara í stríð við Rússa. Við höfum þess vegna ákveðið að leggja harðar að okkur til að koma í veg fyrir stigmögnun og vera við öllu búnir komi til stigmögnunar.“

Joe Biden Bandaríkjaforseti var spurður hver yrðu viðbrögðin ef Pútin skipaði rússneska hernum að beita efnavopnum í Úkraínu. Biden svaraði að það mundi „trigger a response in kind“ – kalla á svar í sömu mynt – og hann bætti við:

„You're asking whether Nato would cross. We'd make that decision at the time.“ Þegar þar að kæmi yrði tekin ákvörðun um hvort NATO skærist í leikinn.

Allt sýnir þetta að á toppfundinum voru enn stigin skref til að styðja Úkraínumenn á vígvellinum. Það er í anda þeirra sem telja efnhagslegar refsiaðgerðir ekki duga til að knýja Pútin til að halda aftur af sér.

220324c-001_rdax_775x440sFrá toppfundi NATO í Brussel 24. mars 2022. Frá vinstri við fundarborðið: Boris Johnson, Joe Biden og Jens Stoltenberg.

Undir lok blaðamannafundar í Brussel í gær var Biden minntur á að fælingarmáttur hefði ekki dugað gegn Pútin og var Biden spurður hvers vegna hann héldi að Pútin breytti um stefnu vegna þess sem ákveðið hefði verið á NATO-fundinum.

Biden sagði að frá upphafi hefði hann sagt að refsiaðgerðir mundu ekki halda aftur af Pútin. Refsiaðgerðir gerðu það aldrei. Með því að viðhalda þeim ykist sársaukinn undan þeim og þær sýndu vilja þeirra sem stæðu að þeim, þess vegna hefði hann (Biden) viljað halda NATO-fundinn þennan dag í Brussel. Til langs tíma mundu refsiaðgerðirnar bíta og stöðva Pútin.

Allar þessar yfirlýsingar verður að skoða í ljósi þess að Pútin tók ákvörðunina um innrás í þeirri trú að tvennt yrði honum til framdráttar: (1) Það yrði borgarastríð innan Úkraínu milli hollvina Rússa þar og andstæðinga Rússa. (2) NATO-klofnaði, sum ríki bandalagsins mundu vilja halla sér að Rússum og ekki ganga langt í refsiaðgerðum.

Hvort tveggja reyndist rangt. Rússum var hvergi fagnað með blómum í Úkraínu og þjóðin þjappar sé saman gegn þeim. Hafi Pútin veðjað á að Þjóðverjar leiddu klofningslið innan NATO varð hann liklega forviða sunnudaginn 27. febrúar þegar Olaf Scholz Þýskalandskanslari kúventi stefnu Þjóðverja í öryggismálum og gagnvart orkukaupum af Rússum.

Biden hafði því rétt fyrir sér þegar hann sagði í gær að ár og dagur væri síðan NATO-ríkin hefðu staðið svo þétt saman. Í lok ályktunar fundarins í gær segir:

„Við erum einhuga að baki þeim ásetningi okkar að ætla að standa gegn árás Rússa, aðstoða ríkisstjórn og íbúa Úkraínu og verja öryggi allra bandalagsþjóðanna.“