9.2.2025 12:16

Einar og Samfylkingin

Líklega má rekja það til hollustu Einars Þorsteinssonar við samkomulagið sem hann gerði við Dag B. í upphafi kjörtímabilsins 2022 að hann kaus að segja ekki hug sinn um ástandið í meirihlutanum að baki sér fyrr en núna.

Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, átti ekki annars kost til að halda áfram þátttöku í stjórnmálum en að bjóða sig fram til þings. Hann gerði það haustið 2024. Í janúar 2024 sagði hann af sér sem borgarstjóri og afhenti framsóknarmanninum Einari Þorsteinssyni embættið. Var það samkvæmt samkomulagi sem þeir gerðu sín á milli eftir kosningar 2022. Frá janúar 2024 sat Dagur B. sem formaður borgarráðs og kvaddi borgarstjórnina 21. janúar 2025 eftir að hafa setið þar frá 2002.

Screenshot-2025-02-09-at-12.15.17

Þegar Dagur B. leitaði fyrir sér um þingframboð sendi Kristrún Frostadóttir flokksformaður frá sér boð um að menn gætu lýst óvild sinni í garð Dags B., sem var á lista með henni í Reykjavík norður, með því að strika yfir nafn hans. Þá benti hún á að Dagur B. væri ekki ráðherraefni flokksins. Við val á formönnum í þingnefndir hefur honum ekki verið sýndur annar trúnaður en sá að verða formaður í undirbúningsnefnd við rannsóknir á útgáfu kjörbréfa!

Það liðu ekki nema rúmar tvær vikur frá því að Dagur B. sagði skilið við borgarstjórnina þar til Einar Þorsteinsson sagðist hafa fengið nóg af því að starfa sem borgarstjóri í umboði samstarfsflokkanna, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar. Tók hann ákvörðun sína í samráði við Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, sem sagðist hafa „fullan skilning á þessari ákvörðun“ hans.

Framsóknarflokkurinn hefði verið kosinn árið 2022 „til að gera breytingar,“ sagði Sigurður Ingi. Allar þær breytingar sem Einar hefði viljað gera hefðu hlotið „mótbyr innan meirihlutans“. Nefndi flokksformaðurinn húsnæðisuppbyggingu í Úlfarsárdal eða á Geldinganesi, endurbætur á fjármálastjórn, bílastæðamál og leikskólamál þar sem Einar hefði verið tilbúinn að horfa á nýjar lausnir eins og vinnustaðaskóla og fleira. Ekkert af þessu hefði meirihlutinn viljað ræða.

Líklega má rekja það til hollustu Einars Þorsteinssonar við samkomulagið sem hann gerði við Dag B. í upphafi kjörtímabilsins 2022 að hann kaus að segja ekki hug sinn um ástandið í meirihlutanum að baki sér fyrr en núna.

Þetta undirstrikar enn frekar hvers vegna Kristrún Frostadóttir beitir sér gegn frama Dags B. Eggertssonar á vettvangi alþingis. Hún áttar sig á því eins og Einar Þorsteinsson að ekki verður lengra haldið á þeirri braut sem Dagur B. markaði í borgarstjórn og birtist nú í stöðnun, fjárhagserfiðleikum, skipulagshneykslum og aðför að flugöryggi í Vatnsmýrinni svo nokkuð sé nefnt.

Hitt hvílir síðan á Kristrúnu að innan Samfylkingarinnar í Reykjavík eru margir þeirrar skoðunar að hún muni kollkeyra sig sem forsætisráðherra, jafnvel á skömmum tíma, og þess vegna sé skynsamlegt fyrir Dag B. að halda sér til hlés á þingi svo að honum verði ekki kennt um fall hennar. Hann verði kallaður til á ögurstundu.

Kristrún segir ekkert um það sem gerist í borgarstjórninni. Henni létti þegar Inga Sæland bannaði samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Þeir sem telja sér trú um að skrif í Morgunblaðinu eða annars staðar ráði afstöðu Ingu fara villur vega, hún er forhert og vill völd. Viðreisn og Samfylking leiða hana til þeirra.