Eilífa stjórnarskrármálið
Af lestri greina sem forystumenn flokka birtu í Morgunblaðinu 31. desember 2019 og Fréttablaðinu 2. janúar 2020 sést að ekki eru líkur á samstöðu allra flokka í stjórnarskrármálinu.
Þegar Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hafði í áramótaávarpi sínu 1. janúar 2020 lýst yfir að hann gæfi kost á sér til endurkjörs að loknu fjögurra ára kjörtímabilinu í júní 2020 minntist hann á störf stjórnarskrárnefndar þar sem meðal annars hefði verið „hreyft þeirri hugmynd að takmarka hversu lengi hver megi vera á forsetastóli“ auk þess sem ræddar hefðu verið „aðrar breytingar á ákvæðum stjórnarskrár um völd og verksvið þjóðhöfðingjans“. Þá sagði forseti: „Þessu ber að fagna.“
Forveri Guðna Th. á forsetastóli Ólafur Ragnar Grímsson var mjög gagnrýnin á ýmsar hugmyndir sem lagðar hafa verið fram um breytingar á stjórnarskránni frá árinu 2009. Má segja að hann hafi rifið þær til grunna í ræðum sínum. Á að skilja fagnaðarorð Guðna Th. sem stuðning hans við að ákveðið verði í stjórnarskrá hve lengi forseti megi sitja og sett verði skýr ákvæði um völd forseta?
Þessi mynd birtist á sínum tíma á vefsíðunni kvennabladid.is
Af lestri greina sem forystumenn flokka birtu í Morgunblaðinu 31. desember 2019 og Fréttablaðinu 2. janúar 2020 sést að ekki eru líkur á samstöðu allra flokka í stjórnarskrármálinu.
Píratinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir gengur lengst og segir í Fréttablaðinu:
„Árið 2019 færðist mikill kraftur í baráttuna fyrir nýju stjórnarskránni. Ákall almennings um nýja stjórnarskrá byggða á tillögum stjórnlagaráðs hefur orðið mun skýrara með tíðum útifundum í kjölfar Samherjamálsins.“
Þarna vísar píratinn líklega til tveggja fámennra útifunda sem Stjórnarskrárfélagið hélt á Austurvelli í desember 2019 og einkenndust af ofstæki í garð Sjálfstæðisflokksins. Þórhildur Sunna fagnar því að á þinginu sem nú situr flytji Samfylkingin með Pírötum stjórnarskrárfrumvarp reist á tillögum stjórnlagaráðs með breytingum í meðförum alþingis. Telur hún þetta sýna „ört breikkandi samstöðu á þingi við þetta mikilvægasta mál samtímans“!
Í grein í Fréttablaðinu segir Logi Einarsson,
formaður Samfylkingarinnar:
„Nýja stjórnarskráin, sem samin var af fulltrúum almennings, var nauðsynlegur þáttur á þeirri leið að byggja samfélagssáttmála á þessum gildum [heiðarleika, réttlæti, samúð og jöfnuð] og það verkefni þarf að klára.“
Það er ekki eldheitur baráttuandi í þessum orðum flokksformannsins.
Í áramótaávarpi sínu á gamlárskvöld 2019 sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:
„Þá er löngu orðið tímabært að sett verði auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem festir í sessi með formlegum hætti þann rétt sem þjóðin hefur á auðlindum sínum.“
Miðað við áralangar umræður um auðlindaákvæði í stjórnarskrána er þetta rétt hjá forsætisráðherra. Allar hliðar málsins hafa verið grandskoðaðar.
Orð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu sýna að hún vill skapa sér sérstöðu í málinu þótt hún láti eins og framgangur þess strandi á öðrum en henni.
Í Morgunblaðinu segir Þorgerður Katrín:
„Við höfum einnig kallað eftir því að forsætisráðherra gefi tillögu sinni um auðlindaákvæði í stjórnarskrá efnislegan tilgang með því að áskilja þar tímabundinn nýtingarrétt.“
Á meðan Þorgerður Katrín heldur fast í sérsjónarmið sín um efni auðlindaákvæðisins verður ekki samstaða um það. Viðreisnarflokkurinn hefur jafnan reist stjórnmálastarf sitt á því að aðrir fallist ekki á sérkröfur flokksins. Pólitísk sérhagsmunagæsla Viðreisnar gerir flokkinn álíka ósamstarfshæfan og Pírata.